
Rússar vilja komast hjá átökum við Úkraínu og Vesturveldin, sagði Vladimir Pútin Rússlandsforseti á árlegum fjögurra klukkustunda maraþon blaðamannafundi sínum fimmtudaginn 23. desember. Hann bætti við að Rússar þyrftu „tafarlaust“ svar frá Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra við kröfum sínum um öryggistryggingar.
Vegna liðsafnaðar Rússa við landamæri Úkraínu óttast margir að stríð kunni að verða. Spurningum um þetta rigndi yfir Pútin á blaðamannafundinum.
„Þetta er ekki það sem viljum,“ sagði Rússlandsforseti þegar hann var spurður um beitingu heraflans.
Bandaríkjastjórn, Evrópusambandið og ríkin í G7-hópnum hafa birt Pútin viðvaranir um „gífurlegar afleiðingar“, þar á meðal efnahagslegar refsiaðgerðir, efni Rússar til árásar.
Pútin sagði að Rússar hefðu almennt fengið jákvæð fyrstu viðbrögð við tillögum sínum til Bandaríkjamanna fyrr í þessum mánuði. Þeim er ætlað að minnka hættuástandið. Hann taldi viðbrögðin lofa góðu í fyrirhuguðum viðræðum um tillögurnar sem hefjist snemma næsta árs í Genf.
Í svari við annarri spurningu æsti Pútin sig þegar hann rifjaði upp hvernig NATO hefði „af óskammfeilni platað“ Rússa með því að stækka stig af stigi frá lokum kalda stríðsins, stjórn sinni yrði að svara án tafar.
„Þið verðið að veita okkur tryggingar og það tafarlaust – núna,“ sagði hann, og einnig:
„Við höfum einmitt núna sett það fram að NATO megi ekki stækka meira í austur og spurt um hvort það sé á döfinni. Boltinn er hjá þeim, þeir verða að svara okkur á einhvern hátt.“
Reuters-fréttastofan hefur eftir fjórum heimildarmönnum að rússneskir málaliðar hafi undanfarnar vikur látið að sér kveða á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu til að herða menn í andstöðu við her Úkraínu.
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, formaður ráðherraráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, sem fylgist með gangi mála í austurhluta Úkraínu sagði að takist að virða gamlar skuldbindingar um vopnahlé sé það „lítið en mikilvægt fyrsta skref til að minnka líkur á átökum“ við yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna.
Úkraínustjórn hafnar fullyrðingum Pútins um að Rússar séu ekki annað en sáttasemjarar í deilu hennar við aðskilnaðarsinna. Rússar veiti her aðskilnaðarsinna þvert á móti aðstoð, þeir séu því aðilar að deilunni og átökum. Ráðamenn Úkraínu hafa hvað eftir annað óskað eftir beinum viðræðum við stjórnvöld í Moskvu án þess að fá áheyrn þar.
Vladimir Pútin fer ekki leynt með andúð sína á Volodymr Zelenskij Úkraínuforseta, hann sé ekki viðræðuhæfur heldur lúti þeim sem Pútin kallar róttæk þjóðernisöfl.
Heimild: France 24h