Home / Fréttir / Pútín heimsækir Múrmansk – rætt um aukna hervæðingu

Pútín heimsækir Múrmansk – rætt um aukna hervæðingu

Kremlverjar dreifðu þessari mynd af Pútín í þyrlu yfir Múrmansk en forsetinn sagði að þyrluflugi til höfuðstöðva Norðurflotans hefði verið aflýst vegna veðurs.

Vladimir Pútin Rússlandforseti heimsótti Múrmansk, hafnarborgina við Barentshaf og næstu stórborg við höfuðstöðvar rússneska Norðurlflotans, fimmtudaginn 20. júlí.

Atle Staalesen, ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer, skrifar um forsetaheimsóknina mánudaginn 24. júlí.

Hann segir að nú megi sjá merki um miklar fjárfestingar í Múrmansk, unnið sé að námuvinnslu á nýjum stöðum í nágrenni borgarinnar, unnið sé að hafnargerð og unnið að jarðgasverkefnum. Það hafi ekki komið neinum á óvart að jarðgasstöð Novateks í Belokamenka hafi verið miðpunktur í heimsókn Pútíns.

Meira máli skipti þó fyrir stríðsforsetann Pútín að vita af öllum hernaðarmannvirkjunum í nágrenni Múrmansk. Norðurflotinn haldi úti herstöðvum á Kólaskaganum, herafla sem skipti meira máli fyrir hernaðarlega og strategíska stöðu Rússa eftir að NATO hafi stækkað á Eystrasaltssvæðinu.

Frá hafnarbæjum á Kólaskaganum sigli kafbátar og herskip Norðurflotans hindrunarlaust út á Norður-Íshaf og þaðan út á heimshöfin, jafnvel á hættutímum.

Atle Staalesen segir að ráða megi af upplýsingum í tengslum við heimsókn Pútíns að á næstu árum sé stefnt að því að fjölga mjög hermönnum á Múrmansk-svæðinu. Þegar Pútín hitti héraðsstjórann í Múrmansk. Adrei Tsjibis, var honum gerð grein fyrir hvernig unnið væri að því að því að búa í haginn fyrir umtalsverða fjölgun fólks í byggðum hermanna á svæðinu.

Héraðsstjórinn sagði að búist væri við sjóliðum, kafbátaliðum, landgönguliðum flotans, vélaherdeildarmönnum, skriðdrekastjórum, flugmönnum og mörgum öðrum.

Pútín sat fund sem snerist sérstaklega um stöðuna í bæjum og byggðum hermanna. Þótt athygli beindist að hernaðarlegum málefnum í heimsókn forsetans voru engir fulltrúar hersins á þessum kynningarfundi. Svo virtist sem Sergei Shoigu varnarmálaráðherra tengdist fundinum gegnum fjarbúnað, það birtist þó aðeins ljósmynd af honum á skjánum en lifandi myndir af öðrum fjarlægum þátttakendum.

Atle Staalesen segir að þótt undarlegt sé bendi allt til þess að Pútín hafi ekki hitt neinn fulltrúa hersins á meðan hann var í Múrmansk.

Forsetinn sagði að gert hefði verið ráð fyrir að hann færi til höfuðstöðva Norðurflotans í Severomorsk en ferðinni hefði verið aflýst vegna óveðurs.

„Við komumst því miður ekki til Severomorsk vegna veðurs, við ætluðum að fljúga í þyrlum en því var aflýst vegna veðurs,“ sagði forsetinn.

Atle Staalesen segir að vissulega hafi verið hvasst í Múrmansk þegar Pútín var þar. Hitt sé samt undarlegt að ferðinni til Severomorsk hafi verið aflýst þar sem þangað sé stutt að aka frá Múrmansk-borg. Þar að auki hafi Kremlverjar sjálfir dreift myndum af forsetanum þar sem hann flaug í þyrlu yfir Kólaflóa með héraðsstjóranum og fleirum.

Í eins konar sárabót lofaði Pútín að reist yrði íþróttamiðstöð og íþróttavöllur í Severomorsk auk þess sem sjúkrahúsið yrði endurnýjað.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …