Home / Fréttir / Pútin hefur þegar tapað segir Yuval Noah Harari

Pútin hefur þegar tapað segir Yuval Noah Harari

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, hefur áunnið sér virðingu alls heimsins með framgöngu sinni.

Einn þeirra sem mótmælt hefur innrás Rússa í Úkraínu er Yuval Noah Harari, höfundur bókanna Sapiens og 21 lærdómur fyrir 21. öldina. Hann segir á vefsíðu The Guardian þriðjudaginn 1. mars að þegar innan vika sé liðin frá því að stríðið hófst séu vaxandi líkur á að við Vladimir Pútin blasi sögulegur ósigur. Hann kunni að sigra í öllum orrustum en samt tapa stríðinu. Draumur Pútins um að endurreisa rússneska keisaraveldið hafi alltaf hvílt á lyginni um að í Úkraínu byggi ekki raunveruleg þjóð, að Úkraínumenn væru ekki raunverulegt fólk og að íbúar Kyív. Kharkiv og Lviv þráðu að lúta stjórninni í Moskvu. Þetta sé haugalygi – í Úkraínu búi þjóð með meira en þúsund ára sögu, Kyív hafi verið heimsborg þegar Moskva var ekki einu sinn orðin þorp. Rússneski harðstjórinn hafi á hinn bóginn endurtekið eigin lýgi svo oft að sjálfur sé hann greinilega farinn að trúa henni.

Við undirbúning innrásarinnar hafi Pútin vitað um hernaðaryfirburði Rússa gagnvart Úkraínumönnum, NATO mundi ekki senda herlið til að hjálpa Úkraínumönnum, vegna kaupa á rússnesku gasi og olíu mundu þjóð eins og Þjóðverjar hika við að samþykkja strangar refsiaðgerðir gegn Rússum. Hann gæti því með því að beita miklu afli náð Úkraínu, tekið stjórnina af lífi, skipað leppstjórn í Kyív og staðið af sér vestrænar refsiaðgerðir.

Pútin vissi að hann hefði afl til að leggja Úkraínu undir sig. Hvað með leppstjórnina mundu Úkraínumenn sætta sig við hana? Pútin veðjaði á það. Næstum enginn hefði veitt rússneska innrásarliðinu mótspyrnu á Krímskaga 2014. Hvers vegna yrði ekki 2022 eins?

Þá segir Yuval Noah Harari:

„Með hverjum deginum sem líður sést betur að Pútin er að tapa veðmálinu. Úkraínumenn veita andspyrnu af öllu hjarta, þeir ávinna sér aðdáun alls heimsins – og sigra í stríðinu. Við blasa margir myrkir dagar. Rússum kann að takast að leggja undir sig alla Úkraínu. Til þess að vinna stríðið verða Rússar hins vegar að halda Úkraínu á sínu valdi og það geta þeir aðeins ef úkraínska þjóðin leyfir þeim það. Vaxandi líkur eru á að svo verði ekki.“

Hann segir að hatur Úkraínumanna á þeim sem ráðast á land þeirra vaxi samhliða mannfalli landa þeirra. Hatrið sé verst tilfinninga. Í huga kúgaðra þjóða sé hatrið þó falinn fjársjóður. Það geymist við innstu hjartarætur og geti af sér andstöðu sem erfist milli kynslóða. Pútin takist aðeins að endurreisa keisaraveldið gerist það með litlum blóðsúthellingum sem leiði til hernáms án mikils haturs. Með því úthella sífellt meira af úkraínsku blóði tryggi Pútin að draumur hans verði aldrei að veruleika. Það verði ekki nafn Mikhaíls Gorbasjovts sem standi á dánarvottorði rússneska keisaradæmisins heldur Pútins. Gorbatsjov skildi við Rússa og Úkraínumenn sem systkini; Pútin breytti þeim í óvini og tryggði að framvegis skilgreini Úkraínumenn sig andstæða Rússum.

Yuval Noah Harari segir að þjóðir skilgreini sig að lokum með vísan til sagna. Með hverjum degi sem núna líði verði til sögur sem Úkraínumenn segi ekki aðeins á myrku dögunum sem fram undan séu heldur á næstu áratugum og þær fari frá einni kynslóð til annarrar: Forsetinn sem neitaði að yfirgefa höfuðborgina og sagði við Bandaríkjamenn að hann þyrfti skotfæri en ekki far; hermennirnir á Snákaeyju sem hrópuðu til rússnesks herskips „farðu til fjandans“; almennu borgararnir sem reyndu að stöðva rússnesku skriðdrekana með því að setjast fyrir framan þá. Á sögum sem þessum séu þjóðir reistar. Að lokum vegi sögurnar þyngra en skriðdrekarnir.

„Rússneski einræðisherrann ætti að þekkja þetta eins vel og hver annar. Sem barn ólst hann upp við alls kyns sögur um grimmdarverk Þjóðverja og hugrekki Rússa í umsátrinu um Leníngrad. Hann er nú að búa til svipaðar sögur en velur sér sjálfur hlutverk Hitlers,“ segir Harari og lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Öll kunnum við að finna hjá okkur hvöt til að gera eitthvað hvort sem það er að gefa í söfnun, taka á móti flóttafólki eða nota vefinn til að leggja baráttunni lið. Stríðið í Úkraínu mun móta framtíð alls heimsins. Sé harðstjóra og árásaraðila liðið að sigra, súpum við öll seyðið af því. Það þjónar engum tilgangi að verða aðeins áhorfandi. Það er tímabært að rísa á fætur og skrá sig til þátttöku.

Því miður er líklegt að þetta stríð verði langvinnt. Í ólíkum myndum kann það að standa árum saman. Mikilvægasta atriðið hefur þó verið ákvarðað nú þegar. Á fáeinum nýliðnum dögum hefur allur heimurinn fengið sönnun um að í Úkraínu býr mjög raunveruleg þjóð, Úkraínumenn eru mjög raunverulegt fólk sem vill örugglega ekki búa undir stjórn nýja rússneska keisaradæmisins. Meginspurningin er hve langan tíma það taki fyrir þennan boðskap að smjúga í gegnum þykka múra Kremlarkastala.“

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …