Home / Fréttir / Pútin hefur í hótunum á degi rússneska herflotans

Pútin hefur í hótunum á degi rússneska herflotans

Ofurhljóðfrárri stýriflaug skotið frá Admiral Gorshkov á Hvítahafi 19. júlí 2021.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti hafði í hótunum í ræðu á degi rússneska flotans í St. Pétursborg sunnudaginn 25. júlí. Hann varaði óvini Rússa við því að flotinn hefði stöðu til að gera árás án þess að henni yrði afstýrt enda yrði hún gerð á óvini ríkisins í þágu „þjóðarhagsmuna“.

Í frétt þýsku fréttastofunnar DW um ræðuna er tekið fram að hún sé flutt aðeins nokkrum vikum eftir að Bretar reittu Rússa til reiði með því að láta herskip sitt sigla nærri Krímskaga sem Rússar innlimuðu árið 2014.

„Nú ræður rússneski herflotinn yfir öllu sem hann þarfnast til að tryggja vernd lands okkar og þjóðarhagsmuna,“ sagði Rússlandsforseti. „Við getum fundið óvininn hvort sem hann er neðansjávar, ofansjávar eða á flugi og sé þess nauðsyn gert á hann árás sem ekki verður afstýrt.“

Í júní sögðust Rússar hafa skotið viðvörunarskotum og kastað sprengjum í kjölfar bresks herskips á Svartahafi til að hrekja það út úr lögsögu Krímskaga. Bresk stjórnvöld höfnuðu lýsingu Rússa á atvikinu. Breska varnarmálaráðuneytið sagði að gefin hefði verið út for-tilkynning um rússneska „skotæfingu“ á svæðinu og engum sprengjum hefði verið kastað.

Pútin sagði skömmu eftir atvikið að Rússar hefðu getað sökkt breska herskipinu HMS Defender sem hefði siglt ólöglega inn í rússneska lögsögu, það hefði ekki orðið upphaf þriðju heimsstyrjaldarinnar og Bandaríkjamenn hefðu átt aðild að „ögruninni“.

Rússlandsforseti sagði einnig að Rússar hefðu tryggt sér sess meðal helstu flotavelda heims meðal annars með því að þróa „ný ofurhljóðfrá nákvæmnisvopn sem [væru] einstæð í heiminum“.

DW segir að þess sé ekki langt að bíða að Bandaríkjamenn, Kínverjar og Frakkar eignist slík vopn.

Mánudaginn 19. júlí skýrðu rússnesk stjórnvöld frá því að gerð hefði verið enn ein vel heppnuð tilraun með nýja Tsirkon-ofurhljóðfráa stýriflaug (SS-N-33-flaug í orðabók NATO). Henni hefði verið skotið frá freigátunni Admiral Gorshkov á Hvítahafi á skotmark á landi við Barentshaf, í um 350 km fjarlægð.

Flauginni er lýst á þann veg að með henni megi rjúfa núverandi flotavarnir NATO-ríkja og hraði hennar sé Mach 7, sjöfaldur hljóðhraði. Þetta var fjórða tilraunin með flaugina frá Admiral Gorshkov. Hinar voru gerðar á Hvítahafi í október til desember 2020. Varnarmálaráðuneytið birti myndband af tilraunaskotinu.

Árið 2019 lýsti Vladimir Putin Tsirkon-flauginni sem ósigrandi, með henni mætti granda skotmörkum bæði á sjó og landi í allt að 1.000 km fjarlægð á allt að Mach 9 hraða.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …