Home / Fréttir / Pútin hefur ekki tíma til kosningabaráttu í fjölmiðlum

Pútin hefur ekki tíma til kosningabaráttu í fjölmiðlum

Kosningamynd af Pútin.

Rússneska forsetakosningabaráttan hófst formlega laugardaginn 17. febrúar og þá staðfesti yfirkjörstjórnin og talsmaður Kremlverja ákvörðun Vladímírs Pútíns forseta um að taka ekki þátt í sjónvarpskappræðunum.

Dmitríj Peskov, talsmaður forsetans, sagði að Pútín mundi ekki taka þátt í kappræðunum vegna embættisskyldna. „Rússneski forsetinn er gjörólíkur öðrum frambjóðendum vegna hlaðinnar dagskrár,“ sagði hann þriðjudaginn 13. febrúar.

Ákvörðunin kann að koma einhverjum á óvart. Hún er þó ekki einsdæmi fyrir Vladimir Pútín. Hann var á sama róli í forsetakosningunum 2016 og 2012.

Dmitríj Peskov sagði að forsetinn kæmi nóg fram í fjölmiðlum. „Hann lætur sig alla þætti þjóðlífsins varða og bregst við þeim. Næstum daglega má kynnast yfirlýsingum Pútins um daglegt líf þjóðarinnar.“

Natalia Budarina, framkvæmdastjóri yfirkjörstjórnar (CEC), hafði áður tilkynnt ákvörðun kosningateymis forsetans. „Ég upplýsi að CEC hefur fengið skjal sem staðfestir að frambjóðandi til forsetaembættis í Rússlandi, Vladimir Vladimiroviutsj Pútin, ætlar ekki að taka þátt í sameiginlegum framboðsviðburðum á alríkisrásum sjónvarpsstöðvanna,“ sagði hún. „Þetta er réttur frambjóðenda,“ bætti hún við til vinsamlegrar skýringar á ákvörðun forsetans.

Það verða því þrír þátttakendur í kappræðum frambjóðenda, Leonid Sloutskíj (leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins), Nikolai Kharitonov (Kommúnistaflokkurinn) og varaforseta neðri deildar þingsins, dúmunnar, Vladislav Davankov (Nýtt fólk).

Þeim var tilkynnt núna á fimmtudaginn um dagsetningar þeirra í sjónvarps- og hljóðvarpsmiðlum. Frá og með mánudeginum 19. febrúar munu frambjóðendur fá inni á fimm alríkissjónvarpsstöðvum og þremur útvarpsstöðvum. Kosningabaráttan hefst laugardaginn 17. febrúar og stendur þar til kosningar hefjast, 15. mars 2024.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …