Home / Fréttir / Pútin hefnir brúar með sprengjuárásum á almenning

Pútin hefnir brúar með sprengjuárásum á almenning

Rússar hafa meðal annars skotið sprengjum á þessa staði.

Rússar sendu að minnsta kosti 83 flugskeyti og sjálfseyðingar-dróna á borgir víðs vegar um Úkraínu að morgni mánudags 10. október. Var þetta mesta samræmda flugskeytaárásin á landið síðan innrásin í það hófst 24. febrúar 2022. Úkraínuher tókst að skjóta um helming flugskeytanna niður áður en þau ollu tjóni.

Flugskeytaárásin var gerð eftir að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hafði 9. október sakað Úkraínumenn og öryggissveitir þeirra um „hryðjuverk sem miðaði að því að eyðileggja mjög mikilvægt rússneskt mannvirki“. Vísaði hann þar til sprengingar á Krímbrúnni laugardaginn 8. október. Brúin tengir Krím og Rússland yfir Kertsjsund.

Þegar morgunumferðin var sem mest mátti heyra margar sprengingar í höfuðborginni Kyív. Var flugskeytum beint að miðborginni sem til þessa hefur ekki verið skotmark Rússa. Þeir sendu síðast sprengju á hverfi í Kyív 26. júní 2022.

Á mánuðunum sem liðnir eru frá því að Rússart hófu innrás sína hefur Pútin ásamt rússneskum embættismönnum og áróðursmönnum hótað að herða sprengjuárásir á Kyív.

Þeir hafa einkum hótað að ráðast á „ákvarðana-miðstöðvar“, það er forsetaskrifstofuna, stjórnarráðsbyggingar, þinghúsið eða aðstæður öryggisstofnana landsins. Að þessu sinni var þó ekki vegið að neinum þessara bygginga eða að bækistöðvum hersins.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og forystumenn evrópskra bandamanna Úkraínu gagnrýndu Rússa harðlega fyrir „hryllilegar“ loftárásir á borgaraleg skotmörk í Úkraínu.

Talið er að 10 hafi týnt lífi í Kyív og 64 særst.

Stoltenberg sagði á Twitter mánudaginn 10. október að NATO styddi hugrakka Úkraínumenn eins og lengi og það tæki að brjóta Kremlverja á bak aftur.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagðist „slegin og ofboðið“ vegna fkugskeytaárása Rússa borgir og almenna borgara í Úkraínu.

Á myndskeiði sem tekið var fyrir utan forsetaskrifstofu hans og sett á samfélagsmiðilinn Telegram sagði Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu:

„Þetta er erfiður morgunn. Við glímum við hryðjuverkamenn. Tugir flugskeyta og íranskra Shaheds (dróna). Skotmörkin er tvenn. Orkuvirki um land allt… Þeir vilja skapa hræðslu og upplausn, þeir vilja eyðileggja orkukerfi okkar. Hitt skotmarkið er fólk. Tíminn og skotmörkin voru sérstaklega valin til að valda eins miklu tjóni og hægt væri.

Þeir eru að reyna að eyðileggja okkur, afmá okkur af yfirborði jarðar … eyða fólkinu okkar sem sefur heima hjá sér í Zaporizhzhya. Drepa fólk sem vinnur í Dnipro og Kyív.

Það lækkar ekki í loftvarnaflautunum um alla Úkraínu. Flugskeyti hitta i mark. Því miður eru sárir og látnir.“

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …