Home / Fréttir / Pútin fjármagnar Luksasjenko til að berja okkur segja mótmælendur

Pútin fjármagnar Luksasjenko til að berja okkur segja mótmælendur

Valdimir Pútin og Alexander Lukasjenko heilsast í Sotsji 14. september 2020.
Valdimir Pútin og Alexander Lukasjenko heilsast í Sotsji 14. september 2020.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti samþykkti mánudaginn 14. september að lána Alexander Lukasjenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, 1,5 milljarð dollara þegar þeir hittust í rússnesku Svartahafsborginni Sotsjí. Andstæðingar Lukasjenkos segja að með þessu sé hann að fá greitt fyrir „að berja okkur“.

Í sjónvarpssamtali vegna fundarins sagði Pútin að Hvít-Rússar ættu að greiða úr pólitískum vandræðum sínum án erlendra afskipta þótt rússnesk stjórnvöld hlutist æ meira til um hvítrússnesk, innri málefni.

Þetta var fyrsti fundur þeirra frá því að Lukasjenko náði endurkjöri sem forseti 9. ágúst. Síðan hefur hann setið undir ásökunum um kosningasvindl og hundruð þúsunda hafa mótmælt honum og stjórn hans á götum úti.

Svetlana Tsikhanouskaja, frambjóðandi gegn Lukasjenko, sem leitaði 10. ágúst skjóls í Litháen segir að ekkert sé að marka neina samninga sem Lukasjenko geri við Pútin eða aðra, hann sé ekki lögmætur forseti Hvíta-Rússlands heldur sitji í skjóli kosningasvindls. Hún hvatti einnig rússneska skattgreiðendur til að mótmæla ábyrgðarleysi Pútins við að ráðstafa fjármunum þeirra af þessu gáleysi í þágu Luikasjenskos. Það væri hann persónulega en ekki Hvít-Rússar sem yrði að endurgreiða Pútin-lánið.

Hún beindi orðum sínum til Rússa og sagði: „Kæru Rússar! Með sköttum ykkar er borgað fyrir barsmíðarnar á okkur. Við erum viss um að það er ykkur ekki að skapi.“

Dmitríj Peskov, blaðafulltrúi Pútins, sagði að loknum fjögurra tíma löngum fundinum í Sotsjí, að fjármunirnir yrðu að hluta notaðir til að endurfjármagna eldri lán.

Fréttaskýrendur segja að nú takist Pútin ef til vill að knýja Lukasjenko til að samþykkja skilyrði vegna efnahagstengslanna við Rússa sem hann hefur áður hafnað. Á hinn bóginn kunni Pútin samhliða því að vekja óvild í sinn garð meðal Hvít-Rússa.
Hingað til hefur Rússa-óvildar ekki gætt opinberlega í mótmælunum í Hvíta-Rússlandi, þau hafa snúið að Lukasjenko og kröfunni um afsögn hans. Nú kann Rússalánið og önnur liðveisla Pútins til að lengja stjórnarsetu Lukasjenkos að kalla fram andúð á Pútin og þar með Rússum.

Pútin sagði að Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, hefði samið um lánið við Lukasjenko þegar hann fór til Minsk á dögunum. Pútin minnti á samstarf Rússa og Hvít-Rússa í varnarmálum og það héldi áfram. Skömmu fyrir Sotsji-fundinn hófu rússneskir fallhlífarhermenn æfingar með her Hvít-Rússa.

Lukasjenko sagði að Hvít-Rússar ættu að hala nánum tengslum „eldri bróðurinn“, Rússa, sérstaklega í efnahagsmálum.

„Efnahagurinn er grunnur alls og svo sannarlega höfum við ávallt haft þá skoðun að leiðarljósi. Og þessir atburðir hafa sýnt að við eigum að standa nær eldri bróður okkar og eiga samstarf á öllum sviðum, þar á meðal í efnahagsmálum,“ sagði Lukasjenko eftir fundinn í Sotsjí.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …