Home / Fréttir / Pútin fiktar enn og aftur við kjarnavopn sín

Pútin fiktar enn og aftur við kjarnavopn sín

Vladimir Pútin og To Lam Víetnamforseti fimmtudaginn 20. júní 2024.

Sérfræðingar sem greina áhrif ferðar Vladimirs Pútins Rússlandsforseta til Norður-Kóreu og Víetnam í vikunni beina athygli sinni ekki síst að því sem snýr að kjarnavopnum.

Spurningar hafa vaknað um hvort Pútin hafi gengið þvert gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna um að aðstoða ekki Norður-Kóreustjórn við að eignast kjarnorkuprengjur. Í staðinn veiti Kim Jong-un rússneska hernum aðstoð í stríðinu í Úkraínu.

Í ræðu í Víetnam gaf Pútin til kynna að Rússar myndu endurskskrifa stefnu sína um beitingu kjarnavopna og lækka þröskuldinn sem ræður ákvörðunum um notkun þeirra.

Pútin fullyrti að Vesturlönd vildu að Rússar biðu „strategískan ósigur“ sem jafngilti „endalokum þúsund ára sögu rússneska ríkisins“ og sagði síðan: „Þá vaknar spurningin: Hvers vegna eigum við að vera hræddir? Er ekki betra að fara alla leið?“ Hann skýrði ekki hvað fælist í orðunum „alla leið“.

Simon Kruse, sérfræðingur danska blaðsins Berlingske í öryggismálum, segir á vefsíðu þess föstudaginn 21. júní að með því að víkja hvað eftir annað að kjarnorkuógninni hafi Pútin dregið úr biti hótana sinna þótt þær veki jafnan athygli og umhugsun. Óttinn við stigmögnun átaka í Úkraínu og að þau leiði til þess að vígvallarkjarnavopnum verði beitt hafi vissulega haldið aftur af ýmsum sem veita Úkraínumönnum hernaðaraðstoð.

Kruse minnir á hvernig ráðamenn Vesturlanda hafi stig af stigi aukið hernaðaraðstoð sína við Úkraínu. Í fyrstu var bannað að senda skriðdreka til landsins eða annars konar flaugar en hermenn bera á öxlunum. Óttinn við viðbrögð Rússa hafi haldið aftur af þeim sem aðstoðina veittu.

Enn er óttinn við kjarnorkuviðbrögð Rússa ástæðan fyrir því að Olaf Scholz Þýskalandskanslari vill ekki að Úkraínuher fái langdrægar, þýskar Taurus-flaugar.

Bandaríkjastjórn heimilaði nýlega að beita mætti bandarískum vopnum til árása á skotmörk í Rússlandi skammt frá Kharkiv, annarri stærstu borg Úkraínu þar sem milljónir manna búa. Annars staðar er slík notkun vopnanna bönnuð og Bandaríkjastjórn bannar alfarið að ráðist sé á rússneskar ratsjár sem tengja má með einum eða öðrum hætti við rússneska kjarnorkuheraflann.

Allt er þetta Rússum í hag á vígvellinum, segir Simon Kruse og þess vegna sé ekki undarlegt þótt Pútin haldi áfram að hafa í hótunum við Vesturlönd.

Blaðamaðurinn segir síðan að svo virðist sem bit rússnesku kjarnavopnanna sé að slævast nú þegar tæp tvö og hálft ár séu liðin frá upphafi stríðsins.

Kruse vitnar í Gideon Rachman, greinanda The Financial Times, sem skrifaði nýlega: „Áhrif kjarnorkuhótana Rússa minnka.“

Til marks um það er bent á að Frakkar og Bretar hafi leyft að langdrægar flaugar þeirra séu notaðar til árása á skotmörk innan Rússlands. Emmanuel Macron Frakklandsforseti útiloki ekki að hann kunni að senda franska hermenn til Úkraínu.

„Þegar Pútin tók að ógna Macron með kjarnavopnum svaraði hann rólegur að Frakkar ættu einnig kjarnavopn. Vestrið er hætt að bregðast við kjarnorkuþvingunum Pútins. Litið er á þær sem brandara,“ sagði rússneski gagnrýnandi Pútins, Andrej Piontkovskij, í úkraínsku sjónvarpi.

Simon Kruse segir að á Vesturlöndum telji menn hættuna á að kjarnavopnum verði beitt minni en fyrir 18 mánuðum. Á hinn bóginn óttist vestrið að Úkraínumenn kunni að tapa stríðinu fái þeir ekki leyfi til að ráðast á skotmörk í Rússlandi.

Þetta mat leiði til þess að leyfið til árása sé gefið. Talið er að afleiðingar leyfisveitingarinnar séu hættuminni en ósigur Úkraínumanna stríðinu, þá yrði öryggi allrar Evrópu í uppnámi.

Fyrirheit Pútins um að fikta við kjarnorkuvopnastefnu Rússlands, sem nú heimilar aðeins notkun kjarnavopna sé tilvist rússneska ríkisins ógnað, telur Kruse gefið til að þóknast rússneskum sérfræðingum í hópi Kremlaraðdáenda sem hvetji til þess að lækka kjarnorkuþröskuldinn niður á vígvallarstig.

Markmiðið sé, að ekki megi sjá fyrir hvenær Rússar kunni að grípa til kjarnavopna – heldur þvert á móti.

„Okkur ber ávallt að óttast hvað fyrir Pútin kunni að vaka. Óvissan um það hefur verið sterkasta spil á hendi Rússa til þessa,“ segir Simon Kruse í lok greinar sinnar.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …