Home / Fréttir / Pútín fagnar hertum tökum hersins á norðurslóðum

Pútín fagnar hertum tökum hersins á norðurslóðum

Fallhífarhermenn

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði á fundi um þróun hers- og hergagnaiðnaðar í Sotsjí þriðjudaginn 12. maí að forgangsverkefni Rússa væri að halda fast við áformin um að endurnýja heraflann. Hann fagnaði hve vel miðaði að styrkja hernaðarleg tök Rússa á norðurslóðum.

TASS-fréttastofan segir að markmiðið sé að 32% búnaðar landhersins, 33% flughersins, 40% fallhlífaliðs og 50% flotans og geimvarnahersveita skuli endurnýjuð.

Forsetinn vitnaði í tölur fyrir mánuðina janúar til apríl 2015 og sagði framleiðendur þegar hafa skilað meira en einum þriðja af því sem stefnt var að framleiða í ár af þyrlum, drónum og loftvarnakerfum. Markvisst væri unnið að endurnýjun bryndreka og stórskotaliðsvopna. Rússneski herinn væri að eignast háþróuð langdræg eldflaugakerfi, herskip og kafbáta.

Pútín vék sérstaklega að heraflanum á norðurslóðum og Norðurflotanum sem hefði aukið öryggi á athafnasvæði sínu. Hann sagði að með því að koma á fót strategískri norðurslóða-herstjórn hefði öryggi á svæðinu verið aukið.

Sameiginleg herstjórn norðurslóða kom til sögunnar 1. desember 2014. Til hennar var stofnað að fyrirlagi Pútíns á grunni Norðurflotans. TASS hefur eftir heimildarmanni í rússneska varnarmálaráðuneytinu að sjálfbærar hersveitir komi til sögunnar að þessu svæði á árinu 2018. Flugherinn myndar kjarna þeirra ásamt loftvarnakerfi. Þá er unnið að því að koma á fót tveimur véla-stórfylkjum landhersins.

Nýja herstjórnin er í bækistöð Norðurflotans í Severomorsk og undir hana fellur landher, flugher og floti, bæði herskip og langdrægir kjarnorkukafbátar.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …