Home / Fréttir / Pútin fær heimild til hernaðar – NATO óttast allsherjarárás í Úkraínu

Pútin fær heimild til hernaðar – NATO óttast allsherjarárás í Úkraínu

Þarna sjá „alþýðulýðveldin“ í austur hluta Úkraínu.

Efri deild rússneska þingsins samþykkti einróma þriðjudaginn 22. febrúar að veita Vladimir Pútin Rússlandsforseta umboð til að beita herafla utan landamæra Rússlands. Samþykktin kann að vera undanfari þess að rússneski herinn geri allsherjar árás á Úkraínu. Hún staðfestir einnig ákvörðunina sem forsetinn tók síðdegis 21. febrúar um að senda herafla til „friðargæslu“ í Donetsk og Lushansk eftir að þau hlutu viðurkenningu Pútins sem sjálfstæð ríki.

Vladimir Pútin efndi til blaðamannafundar eftir samþykkt efri deildarinnar. Hann sagði Minsk-friðarsamkomulagið um austurhluta Úkraínu ekki hafa verið gilt um langan tíma og kenndi Úkraínumönnum um að „gera út af við það“.

Hann krafðist þess að Úkraína „afvopnaðist“ og best væri að Úkraínustjórn gæfi frá sér allar vonir um aðild að NATO.

Hann sagði „óðvinunandi“ að Úkraína væri „grá fyrir járnum“ og „and-rússnesk“.

Hann sagði að rússneski heraflinn í Donbas mundi gera það sem væri nauðsynlegt miðað við stöðuna hverju sinni. Hann hefði aldrei sagt að hermenn færu tafarlaust þangað. Það væri „ómögulegt að segja fyrir um“ hvað rússneski herinn kynni að gera í Donbas.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði þriðjudaginn 22. febrúar að „allt benti til þess“ að Rússar byggju sig áfram undir „allsherjarárás á Úkraínu“.

Stoltenberg hitti fréttamenn í höfuðstöðvum NATO í Brussel að loknum fundi í NATO-Úkraínunefndinni. Hann sagði Rússa „lofa að stíga til baka en þeir hald[i] bara áfram“. Hann sagði Rússa leita eftir átyllu til átaka í austurhluta Úkraínu og hvatti þá til að rifa seglin.

Jens Stoltenberg lagði áherslu á að NATO mundi gera allt sem nauðsynlegt væri til að hindra árás á bandalagsríkin. Hann benti á að undanfarið hefði hermönnum undir fána bandalagsins fjölgað um mörg þúsund í austurhluta Evrópu og mikill fjöldi væri í viðbragðsstöðu.

„Það eru meira en 100 orrustuþotur okkar tilbúnar til flugtaks og meira en 120 skip frá bandalagsþjóðunum á hafi úti, frá norðurslóðum til Miðjarðarhafs,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Hann fagnaði því að mörg NATO-ríkjanna hefðu gripið til efnahagsþvingana og að Nord Stream 2 gasleiðslan yrði ekki tekin í notkun. Hann áréttaði jafnframt að bandalagsríkin legðu mjög hart að Rússum að velja pólitíska lausn. Stoltenberg sagði þetta „hættulegasta augnablik í evrópskum öryggismálum um langan aldur“. Ríki Evrópu og Norður-Ameríku stæðu saman innan NATO staðráðin í að verja hvert annað.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …