Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hittir Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í tengslum við Arctic Forum, árlega ráðstefnu sem Rússar skipuleggja um norðurslóðamál í Arkhangelsk 29. til 30. mars 2017. Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði þetta í samtali við rússnesku fréttastofuna RIA Novosti fimmtudaginn 16. mars. Hann sagði að Pútín mundi einnig eiga einkafund með Sauli Niinistö, forseta Finnlands, í tengslum við norðurslóðaráðstefnuna.
„Að venju tekur Pútín þátt í ráðstefnunni og upphafsfundi hennar. Talið er líklegt að forsetinn flytji nokkuð langa og efnismikla ræðu um norðurslóðamál [síðdegis 30. mars]. Guðni Thorlacius Jóhannesson, forseti Íslands, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands, hafa staðfest þátttöku sína. Við væntum þess eðlilega að auk þess að taka þátt í ráðstefnunni munu forsetinn eiga tvíhliða fundi með þessum gestum – leiðtogum Íslands og Finnlands,“ sagði Peskov.
Talið er að rúmlega 1.500 manns frá 14 löndum taki þátt í ráðstefnunni, þ. á m. frá Ástralíu, Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Kanada, Kína, Noregi, Bandaríkjunum, Finnlandi, Sviss og Japan.
„Meðal þeirra verða forystumenn rússneskra og alþjóðlegra fyrirtækja sem starfa á norðurslóðum, alþjóðlegir sérfræðingar og fulltrúar ríkis- og vísindastofnana,“ sagði talsmaðurinn.
Thomas Nilsen, ritstjóri Independent Barents Observer, segir að á síðari tímum hafi aldrei jafnmargir háttsettir embættismenn boðað að þeir ætli að sækja ráðstefnu í Rússlandi. Alls séu 800 erlendir gestir skráðir á ráðstefnuna.
Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, og Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, hafa boðað komu sína. Þetta er í fyrsta sinn síðan Rússar innlimuðu Krímskaga fyrir þremur árum sem utanríkisráðherrar landanna fara til Rússlands.
Brende og Samuelsen munu hitta Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa.
Meðal ráðstefnugesta verður Wang Yang, einn af fjórum vara-forsætisráðherrum Kína. Áhugi Kínverja á norðurslóðum er mikill og vaxandi. Þeir gerðu haustið 2016 samning við hafnaryfirvöld í Arkhangelsk um að Poly fyrirtækið í Peking tæki að sér gera úthafshöfn fyrir borgina og leggja Belkomur-járnbrautina sem tengir hafið og Komi-lýveldið.
Arkhangelsk er stærsta borgin á Barents-svæðinu og mikilvæg rússnesk samgöngumiðstöð. Borgaryfirvöld hafa tilkynnt að þau muni rífa tvær íbúðarblokkir sem annars yrðu að leið Pútíns inn í borgina. Þau kjósa frekar að gera það segir Thomas Nilsen ritstjóri en fela hrörlegar byggingarnar að baki Potemkin-tjalda.