Home / Fréttir / Pútin boðar flutning kjarnavopna til Belarús

Pútin boðar flutning kjarnavopna til Belarús

Tveir einræðisherrar og samherjar: Alexander Lukasjenkó Belarúsforseti og Vladimir Pútin Rússlandsforseti.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði laugardaginn 25. mars að hann ætlaði að flytja vígvallar-kjarnavopn (e. tactical nuclear weapons) til Belarús. Birgðir þessara vopna yrðu komnar þangað 1. júlí en þegar hefði hafist undirbúningur með því að senda 10 flugvélar til landsins sem gætu beitt vopnunum auk þess skotpallar fyrir Iskander-flaugar yrðu í Belarús.

Úkraínustjórn krafðist skyndifundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, frá NATO barst tilkynning um að ákvörðun Pútins bæri vott um ábyrgðarleysi og Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, varaði stjórnvöld í Belarús við að leyfa Rússum að koma þessum vopnum fyrir í landi sínu. Í því fælist ábyrgðarlaus stigmögnun og ógn við evrópskt öryggi. Belarús gæti enn stöðvað flutning vopnanna. ESB mundi svara með frekari refsiaðgerðum.

Pútin bar fyrir sig laugardaginn 25. mars að hann yrði að grípa til þessa úrræðis vegna þess að Bretar hefðu ákveðið að láta Úkraínumönnum í té skotfæri sem mætti nota til að granda bryndrekum af því að í kúlunum væri úrelt úraníum til að auka hörku þeirra.

Vígvallar-kjarnavopn eru skammdræg eins og nafnið gefur til kynna. Þau eru ekki eins öflug og kjarnaoddarnir sem settir eru í langdrægar eldflaugar.

Bandaríkjastjórn segir að engin merki sjáist um að Rússar hafi flutt kjarnavopn yfir landamæri Belarús.

„Við höfum ekki séð neina ástæðu til að laga kjarnavopnakerfi okkar að breyttum aðstæðum,“ sagði í yfirlýsingu bandaríska varnarmálaráðuneytisins.

Oleksíj Danilov, ritari öryggisráðs Úkraínu, segir að Kremlverjar hafi tekið Belarús í „kjarnorku-gíslingu“.  „Þetta er skref sem stigið er til að grafa undan innri stöðugleika í landinu,“ sagði hann.

Pútin sagði ekki hve margar kjarnasprengjur Rússar ætluðu að flytja til Belarús sem á landamæri að Úkraínu, Póllandi, Litháen og Lettlandi.

Bandaríkjastjórn telur að Rússar eigi um 2.000 vígvallar-kjarnavopn, sprengjur sem flytja má með flugvélum, kjarnaodda í skammdrægar flaugar og sprengjur fyrir stórskotavopn.

Pútin færði þau rök máli sínu til stuðnings að bandarísk kjarnavopn væru í Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi og Tyrklandi.

„Við erum að gera það sama og þeir hafa gert í áratugi, að geyma þau í nokkrum bandamannaríkjum, undirbúa skotpallana og þjálfa mannskap,“ sagði Pútin í samtali við rússneska ríkissjónvarpið að kvöldi laugardags 25. mars. Hann fullyrti að ákvörðun sín bryti ekki bága við gildandi samninga um bann við dreifingu kjarnavopna.

Á sínum tíma voru sovésk kjarnavopn í Belarús, Úkraínu og Kasakstan. Þau hurfu þaðan eftir hrun Sovétríkjanna og hafa ekki verið flutt út fyrir Rússland fyrr en núna með þessari ákvörðun Pútins.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …