
Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir að Rússar hafi þróað og gert tilraunir með nýja tegund af langdrægum eldflaugum, neðansjávar dróna og önnur vopnakerfi sem geta flutt kjarnorkuvopn. Með þessari nýju gerð vopna geti þeir brotist í gegnum varnir Bandaríkjanna. Sérfræðingar segja að þetta bendi til að nýtt vígbúnaðarkapphlaup hefjist.
Forsetinn flutti stefnuræðu sína fimmtudaginn 1. mars, rúmum tveimur vikum fyrir forsetakosningar, á fundi með forystusveit Rússlands og var henni sjónvarpað um landið allt. Hann sýndi myndskeið með kynningarefni á langdrægum eldflaugum, kjarnorkuknúnum stýriflaugum, neðansjávar-drónum og öðrum vopnum sem hann sagði að Rússar hefðu þróað eftir að Bandaríkjastjórn rifti samningnum um bann við vörnum gegn langdrægum eldflaugum við Sovétstjórnina frá árinu 1972.
„Þið hlustuðuð ekki á það sem við sögðum þá. Þið skulið hlusta núna,“ sagði forsetinn. Þegar hefðu verið gerðar tilraunir með sum vopnanna. Það gætti ögrunar í ræðu Pútíns þegar hann sagði:
„Ég vil að þeim sem hafa reynt að stigmagna vígbúnaðarkapphlaupið undanfarin 15 ár til að ná einhliða forskoti gagnvart Rússum og sett hafa boð og bönn sé ljóst að tilraunin til að halda aftur af Rússum hefur mistekist.“
Ræðan einkenndist af loforðum um efnahagsumbætur heima fyrir og vopnaskaki í garð Bandaríkjanna. Margir líta á þetta sem fyrstu ræðu Pútíns til að kalla á fylgi kjósenda í forsetakosningunum sunnudaginn 18. mars. Af hálfu Pútíns er lögð höfuðáhersla á að fá sem flesta til að greiða atkvæði í fjórða skiptið sem hann býður sig fram sem forseta.
Ræðan var ekki flutt í gyllta sal Kremlarkastala eins og jafnan áður heldur í sal sýningahallar í miðborg Moskvu þar sem forsetinn gat nýtt sér bestu tækni til að sýna skýringamyndir og myndskeið.
Í fyrri hluta ræðunnar vildi Pútín ýta undir bjartsýni þjóðarinnar með því að lofa að lífaldur lengdist um 10 ár, verg landsframleiðsla Rússlands ykist um 50% fram til 2025 og fátækum fækkaði um helming. Hann sagði að nauðsynlegt væri fyrir Rússa að fleyta sér áfram á öldu tækniframfara eða eiga á hættu „að drukkna í þessari öldu“.
Á tjaldinu voru sýnd gröf um fæðingartíðni og uppskerumagn undanfarinna ára en þar mátti þó einkum sjá myndir af nýjustu vopnum Rússa. Sum þeirra duga til að senda kjarnorkusprengjur hvert á land sem er í heiminum.
Pútín nefndi sérstaklega tilraun með rússnesku RS-Sarmat-eldflaugina. Þetta er langdræg eldflaugm, ICBM, sem sögð er geta flogið 6.800 mílur með 15 sprengjuodda. Raunveruleg geta flaugarinnar hefur þó ekki verið sýnd. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að það hefði gert vel heppnaða tilraun með flaugina í október 2017 þegar henni hefði verið skotið 3.600 mílur á skotmark austast í Rússlandi.
Pútín sagði Rússa einnig hafa þróað nothæf leysi-vopn, ofurhraðfleyga eldflaug og stýriflaug knúna kjarnakljúfi, gæti hún flogið óendanlega lengi.
Þetta er í 14. skipti síðan hann varð forseti árið 2000 sem Pútín flytur ræðu í samræmi ákvæði stjórnarskrárinnar um að forsetinn greini frá „ástandi lands og þjóðar“. Ræðuna flutti hann ekki árin fjögur þegar hann var forsætisráðherra.
Heimild: The Guardian