Home / Fréttir / Pútin blekkti Macron í símtali

Pútin blekkti Macron í símtali

Þessi mynd af Emmanuel Macron var tekinn eftir að hann átti símtal við Vladimir Pútin.

Að morgni sunnudags 20. febrúar, fjórum dögum áður en Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf fyrirmæli um innrásina í Úkraína, hringdi Emmanúel Macron Frakklandsforseti í hann um von að geta komið á skyndifundi Pútins og Joes Bidens Bandaríkjaforseta í Genf.

Frásögn af efni símtalsins, sem stóð í níu mínútur, birtist í heimildarmyndinni: Forseti, Evrópa og stríð sem var frumsýnd á sjónvarpsstöðinni France 2 fimmtudaginn 30. júní.

Macron fullvissaði Pútin um að Biden hefði gefið sér grænt ljós vegna hugmyndar um fund með Pútin, Biden hefði hugmyndir um hvernig draga mætti úr spennu vegna rússneska herliðsins sem umkringdi Úkarínu á þessum tíma.

„Biden forseti hefur velt fyrir sér leiðum til að draga úr spennunni á trúverðugan hátt og taka tillit til krafna þinna og einnig tekið afstöðu til spurningarinnar um NATO og Úkraínu,“ sagði Macron.

Pútin svaraði tilboðinu hikandi.

„Þakka þér fyrir, Emmanuel. Það er alltaf mjög ánægjulegt og mikill heiður að ræða við evrópska kollega þína og Bandaríkjamenn. Og ég nýt þess alltaf að ræða við þig vegna þess að á milli okkar er trúnaðarsamband. Því legg ég til, Emmanuel, að snúum stöðunni við. Þú undirbýrð fyrst fundinn svo að við hittumst ekki til að tala um allt og ekkert, þá verðum við aftur gagnrýndir.“

Macron gekk eftir skýru svari. Hann vildi vita hvort þetta þýddi já eða nei um toppfund með Biden,

Á þessum tíma hafði Pútin stillt öllu herliði sínu í innrásarstöðu og hann dró enn lappirnar:

„Þetta er tillaga sem er þess virði að skoða. Ef þú vilt að við verðum í sambandi um hvernig á að formúlera hana legg ég til að þú biðjir ráðgjafa okkar að tala saman í síma til að þeir nái saman. En þú skalt vita að í prinsippinu er ég þessu sammála.“

Pútin lauk samtalinu með þeim orðum að nú vildi hann gjarnan fara út að leika íshokkí, hann væri í skautahöll.

Toppfundur Bidens og Pútins var aldrei haldinn eins og vitað er. Snemma morguns 24. febrúar, fjórum dögum síðar, gaf Pútin fyrirmæli um að hefja skotflaugaárás á Úkraínu.

Allar tilraunir Macrons til sátta misheppnuðust. Þótt Pútin fullvissaði Macron um að milli þeirra væri sérstakt trúnaðarsamband snerist þetta allt um að sýnast út á við.

Í upphafi símtalsins var Macron bæði ágengur og orðhvatur. Pútin þótti oft nóg um og greip fram í fyrir honum og sagði „heyrðu nú“.

Pútin býsnaðist lengi yfir að Volodymyr Zelenskí Úkraínuforseti virti ekki Minsk-friðarsamkomulagið frá 2014 af því að hann vildi ekki semja beint við aðskilnaðarsinna í Donbas. Sauð einu sinni alvarlega upp úr hjá Pútin og réðst hann á stjórnina í Kyív:

„Þetta er ekki lýðræðislega kjörin stjórn. Þeir rændu völdum til að ná þeim, fólk var brennt lifandi, þetta var blóðbað, Zelenskíj er einn þeirra sem ber ábyrgð á þessu. Hlustaðu á mig. Samtal er reist á því prinsippi að tekið sé tillit til þess sem viðmælandinn segir. Tillögurnar eru fyrir hendi, aðskilnaðarsinnarnir, eins og þú kallar þá, hafa sent þær til Úkraínumanna án þess að fá nokkurt svar. Hvar er samtalið?“

Á öðrum stað í samtalinu vildi Macron vita hvort Rússar ætluðu bráðlega að ljúka heræfingum sínum við landamæri Úkraínu.

Macron: „Þið hættið þá í kvöld, ekki satt?“

Pútin: „Jú, sennilega í kvöld, en við munum örugglega halda úti herafla við landamærin þar til ástandið á Donbas-svæðinu er orðið rólegt.“

Macron: „Ok, Vladimir, ég segir mjög hreinskilnislega við þig að það er algjört skilyrði fyrir því að ég geti hafið viðræðurnar og komist hjá spennu. (…) Ég reikna með þér og með því að þú á næstu klukkustundum og dögum sért ekki með neinar ögranir.“

 

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …