Home / Fréttir / Pútín bíður Trumps með ákvörðun um brottrekstur bandarískra sendiráðsmanna – flott segir Trump

Pútín bíður Trumps með ákvörðun um brottrekstur bandarískra sendiráðsmanna – flott segir Trump

Bandaríska sendiráðið í Moskvu.
Bandaríska sendiráðið í Moskvu.

Rússneska utanríkisráðuneytið lagði föstudaginn 30. desember til við Vladimír Pútín Rússlandsforseta að hann ræki 35 bandaríska stjórnarerindreka úr landi eftir að Bandaríkjastjórn rak jafnmarga rússneska sendiráðsmenn frá Bandaríkjunum. Pútín féllst ekki á tillöguna heldur sagðist vilja bíða og fylgjast með stefnumörkun Donalds Trumps verðandi Bandaríkjaforseta.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hrósaði Pútín fyrir að svara ekki í sömu mynt. Trump sagði á Twitter: „Flott frestun (hjá V. Pútín) – ég hef alltaf vitað að hann sé klár.“

BBC segir óljóst við hvað Trump eigi með orðinu „frestun“.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði á blaðamannafundi að morgni föstudagsins 30. desember að 35 bandarískir stjórnarerindrekar yrðu reknir frá Rússlandi, 31 úr sendiráðinu í Moskvu og fjórir frá ræðisskrifstofunni í St. Pétursborg.

Síðar þennan sama föstudag sagði Pútín hins vegar að hann mundi ekki reka Bandaríkjamennina úr landi. Rússar „áskilja sér þó rétt til gagnaðgerða“ gegn Bandaríkjunum eftir að hafa kynnt sér stefnu stjórnar Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, sem tekur við völdum 20. janúar 2017. Rússar mundu ekki lúta svo lágt að taka upp starfshætti „markaðstorgsins“ í samskiptum við önnur ríki, sagði Pútín við rússnesku fréttastofuna RIA og einnig:

„Ég lít á óvinsamlegar aðgerðir fráfarandi stjórnar Bandaríkjanna sem ögrun með það að markmiði að grafa undan samskiptum Bandaríkjamanna og Rússa. Það er augljóslega í andstöðu við grundvallarhagsmuni rússnesku og bandarísku þjóðanna.

Með hliðsjón af hnattrænni ábyrgð Rússa og Bandaríkjanna á að gæta heimsöryggis skaðar þetta almennt öll alþjóðasamskipti.“

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar um brottrekstur 35 Rússa frá Bandaríkjunum og lokun tveggja miðstöðva Rússa í Maryland og New York var kynnt opinberlega fimmtudaginn 29. desember. Ákvörðunina má rekja til tölvuárása Rússa á demókrata í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum til 8. nóvember. Rússar hafna þessum ásökunum.

Þennan sama fimmtudag birtu heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna og alríkislögreglan (FBI) niðurstöðu þess efnis að sameiginlegar rannsóknir sýndu að rússneska ríkisstjórnin hefði staðið að tölvuárásum á bandaríska einstaklinga og stofnanir, þar á meðal stofnanir tengdar stjórnmálaflokkum. Upplýsingum sem aflað hefði verið á þennan hátt hefði síðan verið dreift til birtingar á vefsíðum eins og DCLeaks og WikiLeaks.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …