
Aðild Finna og Svía að NATO er „ekki vandamál“ fyrir Rússa sagði Vladimír Pútin Rússlandsforseti fimmtudaginn 30. júní þar sem hún tengdist innanlandsmálum í löndunum tveimur. Það gilti öðru um þessi tvö lönd en Úkraínu, sagði forsetinn í rússneska ríkissjónvarpinu.
Reuters–fréttastofan segir að Pútin hafi einnig varað við því að NATO héldi úti herafla eða stæði að mannvirkjum í Finnlandi og Svíþjóð. Kæmi til þess yrðu Rússar að svara í sömu mynt og ógna þeim svæðum þaðan sem ógn steðjaði að þeim sjálfum. „Óhjákvæmilega“ yrði meiri spenna í samskiptum Rússa við þjóðirnar tvær eftir NATO-aðild þeirra.
Formlegt aðildarboð til Finna og Svía var samþykkt á fundi NATO-landanna miðvikudaginn 29. júní. Mánudaginn 4. júlí verða formlegar viðræður við fulltrúa ríkjanna í höfuðstöðvum NATO í Brussel en stefnt er að því að undirrita formleg aðgangsskjöl þriðjudaginn 5. júlí. Síðan hefst staðfestingarferli í NATO-löndunum 30 sem kann að taka nokkra mánuði.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við blaðamenn í lok ríkisoddvitafundar NATO í Madrid fimmtudaginn 30. júní og sendi Pútin sneið, honum hefði tekist að sameina Evrópu gegn Rússlandi.
„[Pútin] vildi finnlandiséra Evrópu en hann fékk natósérað Finnland,“ sagði Biden.
Orðið finnlandiséring var notað í kalda stríðinu um stöðu Finnlands utan hernaðarbandalaga en með vináttusamning við Rússland. Finnar líta á hugtakið sem niðurlægjandi fyrir sig og einföldun á kafla í þjóðarsögu sinni.
„Pútin hélt að hann gætið rofið bandalag þjóðanna yfir Atlantshaf – hann bjóst við að staðfesta okkar brysti en hann fær einmitt það sem hann vildi ekki. Með aðild Finna og Svía verðum við sterkari en nokkru sinni fyrr,“ sagði Biden.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, vék að orðum Pútins um hugsanlegan viðbúnað NATO í Finnlandi og Svíþjóð á blaðamannafundi sínum í lok Madrid-fundarins.
Hann sagði Finna og Svía fullvalda þjóðir sem hefðu rétt til að ákveða sjálfar hvert þær stefndu og gerast aðilar að NATO. Þær væru velkomnar í bandalagið sem væri auðvitað „búið undir hvað eina sem kynni að gerast“.
Stolteberg benti á að afstaða rússneskra yfirvalda til NATO-aðildar þjóðanna væri á marga lund. Það hefðu borist „ólík sklaboð frá Moskvu um málið,“ sagði hann. Mikilvægast væri að Finnar og Svíar yrðu aðilar að NATO.
Eftir að hafa ritað undir aðgangsskjalið þriðjudaginn 5. júlí verða embættismenn ríkjanna áheyrnarfulltrúar á fundum NATO-ríkjanna. Einnig eflast samskipti herstjórnenda og herja landanna við herstjórnir NATO og liðsafla undir þeirra stjórn.