Home / Fréttir / Pútín afbakar hlut Pólverja við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar

Pútín afbakar hlut Pólverja við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar

 

Frá hersýningu í Moskvu 24. maí 2020.
Frá hersýningu í Moskvu 24. maí 2020.

Pólska ríkisstjórnin sakar Vladimir Pútin Rússlandsforseta um að afbaka sögu síðari heimsstyrjaldarinnar í því skyni að hvítþvo Sovétmenn af glæpum þeirra. Með þessu taki hann þátt í „upplýsingastríði“ gegn vestrinu.

Í fyrri viku birtist löng grein eftir Pútin í bandaríska tímaritinu National Interest undir fyrirsögninni: Það sem 75 ára afmæli síðari heimsstyrjaldarinnar segir okkur í raun. Miðvikudaginn 24. júní var risavaxin hersýning á Rauða torginu í Moskvu til að minnast endaloka styrjaldarinnar. Hún hafði verið ráðgerð á sigurdaginn 9. maí en var frestað vegna COVID-19-faraldursins.

Í greininni áréttar Pútin að líta eigi á Sovétmenn sem höfuðsigurvegara yfir Þýskalandi nazismans og telur að líta eigi á Pólverja, íbúa lands sem Þjóðverjar og Sovétmenn skiptu á milli sín með hervaldi, að hluta sem upphafsmenn síðari heimsstyrjaldarinnar. Allst týndu sex milljónir Pólverja lífi í stríðinu.

Í frétt AP-fréttastofunnar vegna greinar Pútins er vitnað í Sergey Radchenko, sérfræðing í sögu kalda stríðsins við Cardiff-háskóla. Hann segir um „óvandaða áróðursgrein“ að ræða og lýsir henni á Twitter sem „sögulegum tilbúningi til stuðnings lítt rökstuddri kröfu hans um eigin mikilleika þegar hann reynir að viðhalda veldi sínu“.

Alls féllu um 27 milljónir manna í Sovétríkjunum í síðari heimsstyrjöldinni og fyrir þjóðarstolt og þjóðarsál Rússa skiptir höfuðmáli að minningunni um framgöngu þeirra í henni sé haldið á loft. Rússnesk stjórnvöld bregðast því illa við telji þau einhverjum skugga varpað á þá minningu.

Að mati pólskra yfirvalda gengur Pútin á hinn bóginn á svig við sögulegar staðreyndir með skrifum sínum og hlut Pólverja í stríðinu. Hann segir meðal annars í greininni:

„Sökin á þeim hörmungum sem gengu þá yfir Pólland hvílir alfarið á pólskum forystumönnum sem höfðu hindrað að Bretar, Frakkar og Sovétmenn mynduðu hernaðarbandalag, treystu á aðstoð vestrænna samstarfsþjóða sinna og köstuðu þar með þjóð sinni undir valtara eyðileggingarvélar Hitlers.“

Pútin endurtók þá fullyrðingu að Sovétstjórnin hefði neyðst til að skrifa undir griðasáttmála við Þjóðverja fyrir upphaf stríðsins, 1939, eftir að vestrænu ríkin létu hjá líða að mynda hernaðarbandalag.

„Sovétmenn reyndu sitt ítrasta til að mynda samstöðu gegn Hitler. Þrátt fyrir – ég segi það enn á ný – tvöfeldnina af hálfu vestrænna þjóða,“ segir Pútin í greininni.

Í griðasáttmála Jóseps Stalíns, sovéska einræðisherrans, og Adolf Hitlers, þýska nazistaforingjans, var að finna leyniákvæði um að sovésk ráð yfir Eystrasaltsríkjunum þremur og skiptingu Póllands milli herja Sovétmanna og nazista.

Nazistar höfðu sáttmálann við Stalín að engu árið 1941 þegar Hitler sendi her sinn inn inn í Rússland.

Pólsk yfirvöld segja að með því að fara rangt með sögulegar staðreyndir um upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar og örlög Póllands vilji Pútin stuðla að sundrung innan NATO og grafa undan trúverðugleika samstarfsins þar. Þá vaki einnig fyrir honum að draga upp þá mynd af Rússum að þeir eigi jafnan erindi að viðræðum þar sem rætt sé um skipan heimsmála.

Sama dag og hersýningin mikla var í Moskvu, 24. júní, tók Donald Trump Bandaríkjaforseti á móti Andzej Duda, forseta Póllands, í Hvíta húsinu í Washington.

 

 

Skoða einnig

Kínverjar staðfesta nýjan áhuga á að fjárfesta í hánorðri Rússlands

Sömu dagana og Xi Jinping, forseti Kína, heimsótti Moskvu var kínversk viðskiptasendinefnd í norðlæga rússneska …