
Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði í símtali við Emmanuel Macron Frakklandsforseta föstudaginn 28. janúar að Vesturveldin hefðu ekki tekið tillit til öryggishagsmuna Rússa í svari sínu til rússneskra stjórnvalda miðvikudaginn 26. janúar. Kröfu Pútins um að útiloka Úkraínu frá NATO var hafnað í svarinu.
Í símtalinu við Macron sagði Pútin að ekki hefði tekist að leysa úr pattstöðunni.
„Bandaríkjastjórn og NATO taka ekki tillit til lykil öryggishagsmuna Rússa eins og að koma í veg fyrir stækkun NATO, banna staðsetningu árásar-vopnakerfa nálægt rússnesku landamærunum eða að skipa hersveitum og búnaði bandalagsins að halda sig í sömu stöðvum og 1997,“ segir í útprentun upplýsingadeildar Kremlar á samtalinu.
Þetta eru fyrstu ummæli Pútins um stöðu mála eftir að Bandaríkjastjórn hafnaði aðalkröfu hans.
Hann sagði Macron að hann mundi grandskoða bandarísku gagntillögurnar áður en hann tæki ákvörðun um frekari aðgerðir.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði fyrir símtal forsetanna að það „vottaði fyrir raunsæi“ í bandaríska svarinu og að Rússar vildu ekki stríð.
Skömmu eftir að Pútin ræddi við Macron sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að bandalagið væri reiðubúið að láta meira að sér kveða í austurhluta Evrópu til að sýna staðfestu sína í verki.
Stoltenberg sagði að Rússar héldu úti í Hvíta-Rússlandi þúsundum hermanna sem biðu þess eins að hefja bardaga auk skotflaugakerfa.
Í desember 2021 settu Rússar fram víðtækar kröfur um nýskipan evrópskra öryggismála til Bandaríkjastjórnar og NATO:
- Úkraína verði útilokuð frá NATO.
- NATO hætti öllum hernaðarumsvifum í austur hluta Evrópu, kalli liðsafla undir merkjum bandalagsins frá Póllandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
- Bandalagið setji ekki niður skotflaugar í löndum sem landamæri að Rússlandi.
Í svörum sínum sögðu Bandaríkjastjórn og NATO að Úkraínumenn hefðu rétt til að velja sér bandamenn en buðu Rússum til viðræðna um staðsetningu skotflauga og önnur mál.