Home / Fréttir / Pussy Riot félagi til Berlínar vegna afeitrunar

Pussy Riot félagi til Berlínar vegna afeitrunar

Pjotr Verzilov .
Pjotr Verzilov .

 

Félagi í andófshópnum Pussy Riot í Rússlandi segir að einn úr hópnum hafi verið fluttur til Þýskalands laugardaginn 15. september til lækninga en grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir honum.

Maria Alekhina sagði The Associated Press að flogið hefði verið með Pjotr Verzilov til Berlínar en skýrði málið ekki frekar.

Á sjálfstæðu fréttasíðunni Meduza var haft eftir Veroniku Nikulshinu, vinkonu Verzilovs, að læknir í klíník í Berlín, vinur föður Verzilovs, hefði mælt með lækningu utan Rússlands.

Verzilov var lagður inn á sjúkrahús í Moskvu þriðjudaginn 11. september og var í gjörgæslu þegar hann náði meðvitund föstudaginn 14. september að sögn Alekhinu. Hún telur að eitrunina megi rekja til pólitísks ágreinings.

Verzilov, Nikulshina og tveir aðrir úr Pussy Riot-andófshópnum sátu 15 daga í fangelsi fyrir að hlaupa inn á knattspyrnuvöll í Moskvu þegar keppt var þar til úrslita á heimsmeistaramótinu. Með þessu vildu þau mótmæla ofríki rússnesku lögreglunnar og tókst þeim að trufla leikinn í örstutta stund, hann var sýndur um heim allan í sjónvarpi.

Verzilov veiktist um sömu mundir og nýjar ásakanir birtust um aðild Rússa að eiturefnaárásinni í Salisbury á Englandi í mars 2018 þegar eitrað fyrir fyrrverandi rússneskum njósnara, Sergei Skripal, og dóttur hans. Ásökunum sínum til staðfestingar birtu bresk yfirvöld myndir úr eftirlitsvélum sem sýndu mennina meðal annars í Salisbury.

Í fyrri viku bentu bresk yfirvöld á tvo menn – sem sagðir eru starfsmenn leyniþjónustu rússneska hersins, GRU – og sögðu þá hafa eitrað fyrir Sergei Skripal og Júlíu, dóttur hans.

Mennirnir tveir sögðu í samtali á rússnesku RT-sjónvarpsstöðinni sem haldið er úti af stjórnvöldum að þeir hefðu aðeins verið ferðamenn í Salisbury til að skoða víðfrægu dómkirkjuna þar. Þeir hefðu aldrei njósnað fyrir herinn.

Nokkrir andstæðingar Kremlverja hafa verið drepnir með eitri undanfarin 15 ár, í valdatíð Vladimirs Pútíns. Alexander Litvinenko, fyrrverandi starfsmaður rússnesku öryggislögreglunnar, dó í London árið 2006 nokkrum dögum eftir að eitrað var fyrir honum með geislavirku efni. Hann veiktist nokkrum klukkustundum eftir að hann hitti tvo Rússa sem Bretar kalla launmorðingja.

Blaðakonan Anna Politkovskaja, afdráttarlaus gagnrýnandi Pútíns, veiktist eftir að hafa drukkið te um borð í Aeroflot-flugvél árið 2004. Hún var á leið til suðurhluta Rússlands í von um að hún gæti stuðlað að lausn á Beslan-atvikinu þegar vígamenn í Tsjetjeníu tóku hundruð skólabarna í gíslingu.

Bent var á að hugsanlega hefði verið eitrað fyrir henni. Politkovskaja hélt lífi. Tveimur árum síðar féll hún fyrir skoti óþekkts byssumanns í lyftu í háhýsinu þar sem hún bjó.

Vladimir Kara-Murza, kunnur stjórnarandstæðingur, dó næstum vegna nýrnaveiki árið 2015, grunsemdir voru um eitrun. Hann veiktist að nýju hastarlega árið 2017.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …