Home / Fréttir / Púrtin kveinkar sér vegn NATO-aðildar Finna – stofnar nýtt herstjórnarsvæði

Púrtin kveinkar sér vegn NATO-aðildar Finna – stofnar nýtt herstjórnarsvæði

Vladimir Pútin

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði í samtali við Rossija-ríkissjónvarpsstöðina sem sent var út sunnudaginn 17. desember að aðild Finnlands að NATO fyrir átta mánuðum leiddi til þess að Rússar yrðu að „binda einhverjar einingar hersins“ nálægt finnsku landamærunum.

Hann sagði að komið hefði til „vandræða“ vegna finnsku nágrannanna eftir að þeir gengu í NATO. Rússneski herinn myndi svara með því að koma á fót nýju herstjórnarsvæði í Norðvestur-Rússlandi.

„Þeir [vestrið] drógu Finna inn í NATO. Var einhver ágreiningur milli þeirra [Finna] og okkar? Leyst hefur verið úr öllum ágreiningi milli okkar fyrir löngu, þar á meðal landamæradeilum um miðja 20. öldina,“ sagði Pútin við sjónvarpsfréttamanninn.

„Það voru engin vandamál þarna á ferðinni, nú verða þau hins vegar, vegna þess að við munum mynda Leningrad-herstjórnarsvæðið og binda ákveðinn fjölda eininga hersins þar.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem viðvörun berst frá Moskvu um gagnráðstafanir vegna NATO-aðildar Finna. Nýlega hefur rússneska öryggislögreglan FSB smalað hælisleitendum að finnsku landamærunum. Þá hafa rússneskir tölvuþrjótar hreykt sér í ár af netárásum á finnskar vefsíður.

Pútin sagði einnig að Rússar hefðu enga ástæðu til að eiga í stríði við NATO-lönd. Fyrir skömmu sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti að Rússar myndu „ekki stoppa“ tækist þeim að ná markmiðum sínum í Úkraínu.

„Rússar hafa enga ástæðu, engan hag – enga geópólitíska hagsmuni, hvorki efnahagslega, stjórnmálalega né hernaðarlega – af því að berjast við NATO-lönd,“ sagði Pútin. „Með slíku tali er aðeins verið að færa rök fyrir rangri stefnu gagnvart Rússum… Þetta er tóm vitleysa og ég held að Biden forseti skilji það.“

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …