Home / Fréttir / Púrin styður Hamas, vænir Ísraela um nazisma

Púrin styður Hamas, vænir Ísraela um nazisma

Benjamin Nethanyahu, forsæitsráðherra Ísraels, og Vladimir Pútín Rússlandsforseti.

Rússnesk stjórnvöld og fjölmiðlar styðja hryðjuverkamenn Hamas opinberleg eftir voðaverkin sem þeir unnu aðfaranótt laugardagsins 7. október í byggðum Ísraela í nágrenni Gaza-svæðisins þar sem Palestínumenn búa undir stjórn Hamas.

Á frönsku vefsíðunni Desk Russie er laugardaginn 14. október leitað svara við spurningunni um hver sé hlutur Rússa í hörmungunum sem orðið hafa vegna Hamas-hryðjuverkanna. Þar segir:

Tengsl Rússa við Hamas og hryðjuverkahópinn Hezbollah við norðurlandamæri Ísraels í Líbanon eru gamalgróin. Rússar líta ekki á þessa hópa sem hryðjuverkasveitir. Rússar leggja rækt við náin og vinsamleg samskipti við stjórnvöld í Íran og Sýrlandi sem standa að baki Hezbollah og Hamas. Þá má rekja það allt aftur til sjöunda áratugarins að Rússar leggi hryðjuverkasamtökum sem starfa í nafni Palestínumanna lið.

Undir forystu Vladimirs Pútins Rússlandsforseta hefur í tæpan aldarfjórðung verið leitast við að láta líta svo út sem stjórn hans sé í góðu sambandi við stjórn Ísraels en hundruð þúsunda fyrrverandi íbúa í Rússlandi búa nú í Ísrael. Margir þeirra leggja áherslu á að vera áfram rússneskir ríkisborgarar.

Skýringuna á því hvers vegna landflótta Rússar vilja halda í ríkisborgararétt sinn eftir komuna til Ísraels má rekja aftur til Stalíns. Hann dreymdi um að ná Ísrael undir sína stjórn og höggva á tengsl landsins við lýðræðisríkin. „Vinsamleg“ persónuleg tengsl milli Pútíns og Benjamíns Netanyahus, forsætisráðherra Ísraels, stuðluðu að öfugsnúinni þróun: vegna áhrifa rússnesks áróðurs og fylgismanna hans (eða útsendara) í Ísrael varð þar til söguskoðun á annarri heimsstyrjöldinni sem fellur að rússneskum viðhorfum. Í skólum og innan hersins er farið yfir hvernig Sovétmenn börðust gegn fasisma, reist hafa verið minnismerki sem snerta ekki sögu Ísraels á neinn hátt, eins og minnismerkið um fórnarlömb umsátursins um Leníngrad í miðborg Jerúsalem o. fl. Ísraelar eru eina þjóð Vesturlanda sem ekki beitti Rússa refsiaðgerðum eftir að þeir hófu útrýmingarstríðið gegn Úkraínumönnum, jafnvel þótt fjöldi fólks frá Úkraínu búi í Ísrael. Ísraelsk stjórnvöld ákváðu að afhenda rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni umdeild landsvæði. Kirkjudeildin lætur verulega að sér kveða í Ísrael. Þegar kór Rauða hersins fór um Ísrael var honum vel fagnað.

Rússar nýttu sér það til fulls að eiga aðgang að ísraelskum hátæknibúnaði eftir að þeir sættu vestrænum refsiaðgerðum. Brátt kom hins vegar að því að Pútínstjórnin gat ekki lengur leikið tveimur skjöldum gagnvart Ísrael. Ástandið innan Rússlands þróaðist æ meira í átt til harðræðis þar sem öll stjórnarandstaða var brotin á bak aftur og leitin að ímynduðum óvinum til að réttlæta vandræði rússneska hersins í Úkraínu svipti hulunni að gamla, undirliggjandi gyðingahatrinu og það setti æ meiri svip á opinberar yfirlýsingar og ræður Pútíns sjálfs.

Hnattrænir draumar Rússa eru einnig til þess að Kremlverjar skipi sér opinberlega við hlið klerkanna í Íran (sem sjá Rússum fyrir vopnum) og hryðjuverkasamtökum. Rússum er hagur af átökum fyrir botni Miðjarðarhafs af því að þau draga athygli frá átökum þeirra í Úkraínu og hækka olíuverð. Óstaðfestar fréttir eru um að Rússar hafi aðstoðað Hamas við undirbúning árásarinnar á Ísrael.

Höfum eitt á hreinu. Hamas mælir ekki með því að til verði Palestínuríki við hliðina á Ísrael sem er fyllilega lögmæt krafa. Hamas vill að gengið sé hreint til verks og gert út af við Ísraelsríki. Íransstjórn hefur árum saman haft sama markmið. Vladimir Pútin hefur fyrir sitt leyti líkt umsátrinu um Gaza við umsátur nazista um Leníngrad. Áður hefur hann sakað stjórnendur Úkraínu og alla úkraínsku þjóðina um nazisma (úkrónazisma). Nú gefur hann jafnframt til kynna að Ísraelar líkist nazistum. Við verðum nú vitni að hroðalegum öfgum í málflutningi Rússa, afleiðingarnar eru alvarlegar.

 

Heimild: Desk Russie, 14. október 2023.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …