Home / Fréttir / Púki Pútins lét myrða Prigózjín

Púki Pútins lét myrða Prigózjín

Nikolaj Patrusjev, forstjóri Öryggisráðs Rússlands.

Fullyrt er að Nikolaj Patrusjev, forstjóri Öryggisráðs Rússlands, gamall KGB-vinur Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, hafi lagt á ráðin um morðið á Jevgeníj Prigózjín Wagner-forstjóra síðsumars í ár.

The Wall Street Journal (WSJ) heldur þessu fram og vísar til heimilda meðal vestrænna leyniþjónustumanna og Rússa, fyrrverandi öryggislögreglumanns, sem sagt er að hafi samband við þá sem standa nærri Rússlandsforseta og njósnaforingja Rússa.

Heimildarmenn blaðsins segja að Patrusjev hafi lengi talið ógn stafa af Wagner-forstjóranum. Honum hafi þótt nóg um stöðugar árásir Prigózjíns á rússnesku herstjórnina auk þess sem honum hafi verið veitt of mikil völd.

Patrusjev hafi einsett sér að Prigózjín skyldi refsað fyrir misheppnað valdarán sitt undir lok júní 2023, segir blaðið, og hann hafi gefið fyrirmæli um að gera út af við hann. Pútin hafi ekki „sett sig upp á móti því“.

WSJ segir að lítil sprengja hafi verið sett undir vængi einkavélar Prigózjíns. Hún sprakk síðan á leið til St. Pétursborgar.

WSJ bar frétt sína undir Patrusjev og aðra embættismenn í Kremlarkastata í Moskvu en fékk engin svör.

Rússlandsfræðingurinn Mark Galeotti, höfundur ævisögu Pútins, hefur lýst Patrusjev sem „púkanum á öxl Pútins sem eitrar huga hans með hvísli sínu“.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …