Home / Fréttir / Puigdemont vill viðræður – hæstiréttur Spánar íhugar áfrýjun til ESB-dómstólsins

Puigdemont vill viðræður – hæstiréttur Spánar íhugar áfrýjun til ESB-dómstólsins

Carles Puigdemont á blaðamannafundi í Berlín laugardaginn 7. apríl.
Carles Puigdemont á blaðamannafundi í Berlín laugardaginn 7. apríl.

 

Carles Puigdemont, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Katalóníu, hvatti til þess laugardaginn 7. apríl að stofnað yrði til viðræðna „á grundvelli gagnkvæmrar virðingar“ milli fulltrúa stjórnvalda í Katalóníu og Madrid.

Puigdemont lét þessi orð falla á blaðamannafundi í Berlín daginn eftir að honum var sleppt úr haldi í Slesvík-Holstein gegn tryggingu. Dómstóll hafði þá neitað að framselja Puigdemont til Spánar vegna ákæru um að hann hefði efnt til uppreisnar.

Puigdemont var forseti héraðsstjórnar Katalóníu fram í október 2017 þegar hann hvarf úr landi og fór í útlegð í Belgíu til að komast hjá handtöku á Spáni. Á fundinum laugardaginn 7. apríl sagði hann að spænsk stjórnvöld yrðu að virða „lýðræði og alþjóðasamninga“ við ákvarðanir sínar um Katalóníu og stjórnmálamenn í héraðinu.

Á blaðamannafundinum sagði Puigdemont að spænsk stjórnvöld yrðu að „fara að ályktunum SÞ (Sameinuðu þjóðanna)“ og sleppa pólitískum föngum og vísaði þar til nokkurra aðskilnaðarsinna úr röðum stjórnmálamanna í Katalóníu. Þeir sitja í haldi vegna einhliða sjálfstæðisyfirlýsingar Katalóníumanna frá Spáni í fyrra.

Hann lýsti þeirri von að hann gæti snúið aftur til Belgíu að loknum málarekstri fyrir þýskum dómstólum en hann ætlaði að vera áfram í Berlín þar til endanleg dómsniðurstaða lægi fyrir. Eftir komu sína til Belgíu sagðist hann ætla að halda áfram „útlegðarstörfum“ sínum.

Puigdemont var handtekinn í Þýskalandi mánudaginn 25. mars með vísan til handtökuskipunar frá yfirvöldum í Madrid. Spænska stjórnin sakar hann um „uppreisn“ og ranga meðferð á opinberu fé með því að skipuleggja og framkvæma ólöglega þjóðaratkvæðagreiðslu í Katalóníu í október 2017 um sjálfstæði héraðsins frá Spáni.

Dómstóll í Slesvík-Holstein hafnaði framsalskröfunni vegna uppreisnar fimmtudaginn 5. apríl. Þýsk lög næðu ekki til uppreisnar nema í henni fælist valdbeiting. Svo væri ekki í máli Puigdemonts, yrði hann því ekki framseldur vegna þessarar kröfu. Var hann látinn laus gegn tryggingu föstudaginn 6. apríl.

Þýskir dómarar eiga enn eftir að taka afstöðu til þess liðs  framsalskröfunnar sem snýr að meðferð opinbers fjár. Verði hann framseldur á þeim grunni geta spænskir dómstólar ekki tekið kröfu ákæruvaldsins um dóm fyrir uppreisn til greina.

Katarina Barley, dómsmálaráðherra Þýskalands, fagnaði niðurstöðu dómstólsins í Slesvík–Holstein og sagði við dagblaðið Süddeutsche Zeitung laugardaginn 7. apríl að niðurstaða dómaranna hefði verið „algjörlega rétt“.

Utanríkisráðherra Spánar Alfonso Dastis, brást við í flýti og gagnrýndi ummæli Barley sem „óheppileg“.

„Að okkar mati er ekki við hæfi að segja álit sitt á ákvörðun dómaranna á þessu stigi,“ sagði utanríkisráðherranna við blaðamenn í spænsku borginni Sevilla.

Innan hæstaréttar Spánar er nú til skoðunar hvort áfrýja eigi niðurstöðunni í Slesvík-Holstein til ESB-dómstólsins í Lúxemborg.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …