Home / Fréttir / Puigdemont viku í haldi Þjóðverja – mótmæli í Berlín

Puigdemont viku í haldi Þjóðverja – mótmæli í Berlín

Stuðningsmenn Puigdemonts mótmæla í Berlín.
Stuðningsmenn Puigdemonts mótmæla í Berlín.

Carles Puigdemont, fyrrv. forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hvetur stuðningsmenn sína að halda baráttunni áfram á meðan hann er sjálfur í haldi Þjóðverja sem vega og meta hvort verða eigi við kröfu spænskra yfirvalda um framsal hans. Puigdemont er sakaður um brot gegn spænskum stjórnlögum með því að leiða sjálfstæðisbaráttu Katalóníumanna.

Þýskir dómarar hafa 60 daga til að úrskurða í málinu. Stuðningsmenn sjálfstæðis Katalóníu og Puigdemonts hafa efnt til mótmæla honum til stuðnings í Berlín.

Puigdemont er í haldi í bænum Neumünster í norðurhluta Þýskalands. Diether Dehm, þingmaður Die Linke-flokksins, lengst til vinstri á þýska þinginu, heimsótti Puigdemont í fangelsið og hljóðritaði boðskap hans til stuðningsmanna sinna. Var hann birtur sunnudaginn 1. apríl.

Í boðskapnum hvetur Puigdemont til þess að baráttunni sé haldið áfram. Katalóníumenn verði áfram að verja rétt sinn sem njóti viðurkenningar Sameinuðu þjóðanna, þeir hafi óskoraðan rétt til að ákveða framtíð sína.

Þeir megi ekki slá slöku við gagnvart ríki þar sem valdið færist sífellt meir og meir á fárra hendur og sverfi að réttindum Katalóníumanna. Baráttunni skuli haldið áfram án ofbeldis eins og til þessa.

Puigdemont hvarf í útlegð í Belgíu eftir að þing Katalóníu lýsti einhliða yfir aðskilnaði frá Spáni í október.

Á Spáni er hann einnig sakaður um að hafa misfarið með opinbert fé með því að efna til ólögmætrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu frá Spáni.

Hann var á leið frá Finnlandi til Belgíu þegar hann var handtekinn eftir að hann ók frá Danmörku inn í Slesvík-Holstein í Þýskalandi sunnudaginn 25. mars.

Í fyrstu var fullyrt að um hreint formsatriði yrði að ræða þegar Puigdemont yrði leiddur fyrir þýskan dómara. Að hann hafi dvalist eina viku í fangelsi sýnir að þýskir dómarar gefa sér góðan tíma til að meta lagalega stöðu hans á grunni evrópsku handtökuskipunarinnar sem nýtt var til að koma honum undir manna hendur.

Afbrotin sem tíunduð eru í ákæruskali spænskra stjórnvalda geta leitt til allt að 30 ára fangelsi.

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …