
Það er púðurtunna á landamærum Venesúela og Kólombíu. Spurning er hvort hún springur laugardaginn 23. febrúar. Þá ætlar Juan Guaidó, forseti þings Venesúela, að kveikja á sprengjuþræðinum með stuðningi Bandaríkjamanna og fleiri þjóða.
Andstæðingar Nicolás Maduros, forseta Venesúela, hófu föstudaginn 22. febrúar ferð að landamærum Venesúela í bílalest sem flytur matvæli og lyf sem flutt voru frá Bandaríkjunum til Kólumbíu. Guaidó hefur heitið því að bílalestin fari inn í Venesúela laugardaginn 23. febrúar. Maduro forseti segir að ekkert neyðarástand ríki í landinu og hann ætlar því að stöðva bílalestina við landamæri Venesúela og Kólumbíu.
Ætlunin er að láta á það reyna hvort Maduro bannar þessar nauðsynjar eða hvort hann lætur undan kröfum um að almenningur fái notið þerra. Beiti Maduro og herinn hörðu sannast enn hvernig valdaklíkan heldur á stjórn mála. Fái bílalestin að fara yfir landamærin kunna matur og hjálpargögn að streyma til landsins og Maduro að missa fótanna í flóðinu.
Nágrannaþjóðir Venesúela í Brasilíu og Kólumbíu vilja láta reyna á hvort reka megi fleyg á milli Maduros og yfirmanna hers Kólumbíu.
Fimmtudaginn 21. febrúar lokaði Maduro landamærunum gagnvart Brasilíu. Hann hefur gefið til kynna að landamærunum gagnvart Kólumbíu verði einnig lokað. Hann hefur bundið enda á samgöngur við þrjár eyjar sem voru nýttar við flutning hjálpargagna til Venesúela.
Verði lokað á bílalestina og her Venesúela stendur með Maduro er óvíst hvað stjórnarandstæðingar gera. Sumir vilja hernaðarlega íhlutun, aðrir leynilegar aðgerðir og enn aðrir halda að sér höndum. Verði síðasti kosturinn valinn er talið líklegt að innan fáeinna mánaða hætti stjórnvöld í Venesúela svo að segja að ráða yfir nokkru lausafé. Við taki mikil óvissa vegna skorts á dollurum hjá stjórnvöldum.
Rússar og Kínverjar hafa lagt stjórn Maduro til mikla fjármuni en nú eru taldar líkur á að þeim þyki nóg að gert í því efni og hafi lokað fjárhirslum sínum.
Sérfræðingar spá því að enn eigi eftir að síga á ógæfuhliðina í efnahagsmálum Venesúela. Ríkið verði í raun bjargarlaust eftir nokkra mánuði. Öll framleiðsla liggur niðri í landinu og ekkert fæst flutt inn til þess. „Hvernig er unnt að reka ríki á þennan hátt?“ er spurt án þess að svar fáist.
Heimild: Axios