Home / Fréttir / Prófessor segir Zakharovu „mjög drykkfellan skíthæl“

Prófessor segir Zakharovu „mjög drykkfellan skíthæl“

Vladimir Pútín forseti veitir Mariu Zakharovu viðurkenningu árið 2017.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, er mikilvægur hlekkur í áróðursvél Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta. Nú veitist annar áróðursmaður Kremlverja að henni fyrir opnum tjöldum að sögn norska blaðsins Aftenposten.

Prófessor Jevgenij Satanovskij er tíður gestur í rússnesku sjónvarpi. Hann hótar þar kjarnorkuárás á Vesturlönd á besta útsendingartíma og krefst þess að Úkraína verði afmáð af landakortinu.

Satanovskij er gyðingur og áhrifamikil rödd meðal gyðinga í Rússlandi sem taldir eru vera um ein milljón. Rætt var við hann á ísraelskri YouTube-stöð þar sem hann veittist harkalega á Zakharovu vegna ummæla hennar um árás Hamas á Ísrael.

Satanovskij gagnrýnir rússneska utanríkisráðuneytið og Zakharovu fyrir að lýsa ekki afdráttarlausri samúð með Ísraelum eftir að Hamas unnu hryðjuverk í landi þeirra 7. október sl.

„Hér er Maria Zakharov sem reynir ekki að leyna andúð sinni á gyðingum. Hún er mjög drykkfelldur skíthæll. Samt kemur hún fram fyrir utanríkisráðuneyti okkar,“ sagði Satanovskij.

Hann segir auk þess Mikhaíl Bogdanov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, vera drykkjubolta sem þiggi mútur frá Arabalöndum.

Í Newsweek segir að þarna hafi prófessorinn greinilega gengið of langt. Rússneska ríkissjónvarpið hefur nú rekið Satanovskij, verður honum ekki oftar boðið í umræðuþætti þangað.

Ria Novosti-fréttastofan segir að honum verði líklega refsað fyrir að vega að heiðri rússneskra stjórnvalda.

„Þetta var óheppilegt,“ segir Satanovskij um atvikið en neitar að biðjast afsökunar:

„Ég er ekki í því að biðjast afsökunar. Ég lýsi því sem ég hugsa og sem ég sé.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …