Home / Fréttir / Prígósjín „mjög líklega“ dauður segja Bretar

Prígósjín „mjög líklega“ dauður segja Bretar

Syrgjendur við höfuðstöðvar Prígósjíns í St. Pétursborg.

 

Breska varnarmálaráðuneytið sagði föstudaginn 25. ágúst að „mjög líklega“ hefði Jevgeníj Prígósjin, stofnandi rússneska Wagner-málaliðahópsins, farist í brotlendingu flugvélar fyrr í vikunni, engin staðfesting þess efnis hefði þó borist frá þeim sem rannsaka atvikið.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti minntist fyrst fimmtudaginn 24. ágúst á banvænan atburðinn þar sem 10 manns fórust. Þar talaði hann um Prígósjín í þátíð þegar hann minntist þeirra sem létust og vottaði fjölskyldum þeirra samúð. Nafn Prígósjíns var á farþegalista vélarinnar.

Athygli vakti að Pútín staðfesti ekki formlega dauða Prígósjíns í orðum sínum og breska varnarmálaráðuneytið segir að þótt ekki liggi fyrir nein „endanleg sönnun“ um að Prígósjín hafi verið um borð og hann sé þekktur fyrir „óvenjulegar“ öryggisráðstafanir sé „mjög líklegt að hann sé í raun dáinn“.

Pútín sagði um Prígósjín 24. ágúst: „Hann var hæfileikaríkur maður en einnig maður erfiðra örlaga, alvarlegra mistaka í lífi sínu.“

Á farþegalistanum var einnig nafnið Dmitri Utkin sem árum saman stóð við hlið Prígósjíns við stjórn Wagner-málaliðanna sem hafa ekki aðeins barist í Úkraínu heldur einnig Sýrlandi og víða í Afríku.

Wagner-hópurinn sem Prígósjín fjármagnaði birtist fyrst árið 2014 þegar Pútin réðst á Úkraínu og börðust málaliðarnir við hlið rússneskra aðskilnaðarsinna í Donbas-héraði í austurhluta Úkraínu. Þá stjórnaði Utkin, rússneskur sérsveitarmaður, þeim. Hann er sagður hafa verið heillaður af sögu og starfsháttum nazista.

Heiti hópsins er rakið til dulnefnis sem Utkin notaði innan hersins og er sagt að rekja megi það til tónskáldsins Richards Wagners sem Hitler hafði í hávegum. Bent er á að innan hópsins hafi fleiri en Utkin aðhyllst sömu hugmyndafræði og til marks um það er nefnt að tákn úr norrænni goðafræði sem hampað er af oflátungum hvíta kynstofnsins megi sjá á myndum af tækjum Wagner-hópsins í Afríku og Mið-Austurlöndum.

Utkin var fæddur 1970 og þjónaði hann í her Rússa gegn aðskilnaðarsinnum í Tsjestjeníu og innan leyniþjónustu hersins, GRU, til ársins 2013. Eftir það stjórnaði hann Spetsnaz-sérsveit og varð undir-ofursti að sögn hugveitunnar Center for Strategic and International Studies í Washington frá 2020.

Deilt er um hvort Utkin hafi „stofnað“ Wagner 2020 eða verið „ráðinn“ í einkaherinn það ár.

Prígósjín neitaði árum saman að hann hefði nokkur tengsl við Wagner en í fyrra viðurkenndi hann að hafa stofnað hópinn og sagðist stjórna honum.

Wagner lét fyrst að sér kveða í Sýrlandi árið 2015 og barðist með Bashar al-Assad forseta í borgarastríðinu þar. Hópurinn fór einnig eigin leiðir og lagði undir sig olíu- og gaslindir. Þá hafa Wagner-liðar verið í Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu, Malí og Mósambík til að þenja út áhrif Rússa í Afríku

Utkin var sæmdur heiðursmerki hersins af Pútín í hátíðarkvöldverði árið 2016. Í júlí 2023 birtist myndskeið sem sýndi Prígósjín flytja ræðu yfir hermönnum sínum eftir að þeir höfðu verið fluttir til búða í Belarús. Í lok ræðunnar gaf hann Utkin orðið sem sagði: „Þessu er ekki enn lokið.“

 

Heimild RFE/RL og NYT.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …