Home / Fréttir / Prígósjín jarðsettur – Pútín víðsfjarri

Prígósjín jarðsettur – Pútín víðsfjarri

Frá útför Prígósjíns.

Wagner-málaliðaforinginn og auðmaðurinn Jevgeníj Prígósjín var jarðsettur þriðjudaginn 29. ágúst í St. Pétursborg við athöfn á vegum fjölskyldu hans og vina. Vladimir Pútin Rússlandsforseti lét ekki sjá sig við athöfnina en þeir Prígósjín voru gamlir vinir þar til fyrir tveimur mánuðum.

Prígósjín fórst þegar einkaþota hans hrapaði til jarðar eftir sprengingu miðvikudaginn 23. ágúst. Þar til sunnudaginn 27. ágúst voru efasemdir um hvort hann hefði verið einn tíu manna um borð í vélinni. Opinber sakamálarannsóknarnefnd Rússlands staðfesti þá að líkamsleifar hans hefðu fundist í braki hennar.

Í tilkynningu frá Wagner-hópnum sagði: „Jevgeníj Prígísjín var kvaddur hinstu kveðju við lokaða athöfn. Þeim sem vilja votta minningu hans virðingu er bent á að heimsækja Porokhovskoje-kirkjugarðinn.“

Opinbera sakamálarannsóknarnefndin sagði ekki hvað kynni að hafa valdið því að einkaþotan fórst á flugi frá Moskvu til St. Pétursborgar. Skömmu áður hafði Prígósjín verið á ferð um Afríku til að auka umsvif Wagner-hópsins þar.

Bráðabirgðaniðurstaða bandarískra njósnastofnana er að vélin hafi verið sprengd af ásetningi í loft upp. Þá hefur verið minnt á hve mikill fjöldi andstæðinga Pútins hafi fallið fyrir launmorðingjum.

Af hálfu Kremlverja er því afdráttarlaust hafnað að Rússlandsforseti hafi átt hlut að morðinu, eru fullyrðingar um það sagðar „vestræn haugalygi“.

Flugvélin splundraðist nákvæmlega tveimur mánuðum eftir að Prígósjín stóð fyrir uppreisn gegn foringjum rússneska hersins og stjórnaði aðgerðum þegar Wagner-málaliðar lögðu undir sig höfuðstöðvar rússnesku suðurherstjórnarinnar í Rostov við Don og héldu síðan „í nafni réttlætis“ til Moskvu.

Á leiðinni þangað skutu þeir niður nokkrar rússneskar hervélar og drápu á annan tug flugmanna. Pútín lýsti uppreisninni sem „landráðum“ og hét því að þeim sem að verki stóðu yrði refsað en nokkrum klukkustundum síðar samdi hann þó við Prígósjín um grið og sakaruppgjöf gegn því að hann stöðvaði menn sína og færi með þeim til Belarús.

Pútín er lýst sem svikara við þetta samkomulag og benda sérfræðingar á að slík svik séu dauðasök meðal mafíuforingja en einmitt með þeim hætti sé nú stjórnað í Kreml.  Þá sýni sprengjuárásin á flugvél Prígósjíns að Pútín treysti sér ekki lengur til að ákæra andstæðinga sína og draga fyrir dóm. Veik staða hans birtist í öllum launmorðunum. Í réttarríkjum fjalli dómarar um refsingu fyrir landráð.

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …