
Rússar segja það róg sem birst hefur í tékkneskum fjölmiðli, að rússneskur launmorðingi hafi átt að eitra fyrir embættismönnum í Prag, þeirra á meðal borgarstjóranum. Tékkneska gagnnjósnastofnunin vill ekkert um málið segja.
Í tékkneska vikublaðinu Respekt var sagt frá því sunnudaginn 26. apríl að Rússi, grunaður um að vera njósnari, hefði komið til Prag fyrir rúmum þremur vikum með tösku sem geymdi baneitrað ricin-efni. Vitnað er í heimildarmenn innan tékknesku öryggislögreglunnar sem sögðu að eitrið hefði verið ætlað Zdenek Hrib, borgarstjóra í Prag, og einum hverfisborgarstjóra.
Fréttirnar tengjast spennunni sem ríkir milli ráðamanna í Prag og Moskvu og grunsemdum um að Rússar hafi staðið að nýlegum tölvuárásum á Tékkland.
Rússar segja á hinn bóginn að á þá en ekki Tékka sé ráðist með upplýsingafölsunum.
Rússenska sendiráðið í Prag birti tilkynningu á Facebook og „hafnar svo fráleitum og vitlausum rógi“.
Mánudaginn 27. apríl sagði sendiráðið að þaðan hefði verið send orðsending í tékkneska utanríkisráðuneytið til að draga athygli að það sem lýst var sem „stöðugum, tilefnislausum árásum á Rússland og sendiráð þess í Prag“.
Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði á fundi með rússneskum blaðamönnum 27. apríl að rannsaka þyrfti ásakanirnar um morðtilræði með ricin-eitri sem upplýsingafalsanir.
„Þetta er ekki unnt að þola refsilaust,“ sagði Zakharova.
Tékkneska utanríkisráðuneytið sagði orðsendingu rússneska sendiráðsins „óviðeigandi“ og hún færi í berhögg við frelsi fjölmiðla. Ráðuneytið sagðist „ekki leggja stein í götu“ frjálsra fjölmiðla.
Ladislav Sticha, talsmaður tékknesku gagnnjósnastofnunarinnar BIS vildi ekkert segja um greinina í Respekt sem Ondrej Kundra skrifaði. „Við þekkjum ekki heimildarmenn Kundra og þess vegna vill BIS ekki segja neitt opinberlega um ásakanirnar,“ sagði Sticha við RFE/RL-fréttastofuna þriðjudaginn 28. apríl.
Í greininni í Respekt segir að grunsamlegur rússneskur njósnari hafi komið með flugvél til Prag fyrir þremur og hálfri viku. Hann er sagður hafa ferðast á diplómata-vegabréfi. Sé það rétt leituðu tékkneskir verðir ekki í farangri hans við komuna.
Respekt segir að honum hafi verið ekið í rússneskum sendiráðsbíl í rússnesku húsaþyrpinguna í Prag en lengi hefur verið litið á hana sem njósnahreiður.
Hrib og Ondrej Kolar, hverfisborgarstjóri í 6. hverfi, segjast njóta lögregluverndar vegna óskilgreindra hótana. Hrib studdi eindregið ákvörðunina sem tekin var fyrir tveimur mánuðum um að skipta um nafn á torginu fyrir framan húsaþyrpingu rússneska sendiráðsins og kenna það við Boris Nemstov, fyrrverandi vara-forsætisráðherra Rússlands, sem gagnrýndi Vladimir Pútin Rússlandsforseta opinberlega. Árið 2015 var Nemtsov myrtur skammt frá Kreml.
Þá stóðu Hrib og Kolar saman að því 3. apríl að reita rússneska ráðamenn til reiði með því að láta fella og fjarlægja styttu af rússneska marskálkinum Ivan Konev sem stjórnaði Rauða hernum í síðari heimsstyrjöldinni þegar hann hrakti her nazista frá Tékkólslóvakíu.
Pavel Novotny, hverfisborgarstjóri í Prag, kallaði yfir sig reiði frá Moskvu í nóvember 2019 þegar hann lagði til að reisa minnismerki til heiðurs herdeild í síðari heimsstyrjöldinni sem skipuð var sovéskum liðhlaupum sem börðust við hlið nazista en snerust gegn þeim að lokadögum stríðsins og áttu hlut að frelsun Prag.
Novotny staðfesti við RFE/RL að hann nyti nú lögregluverndar en vildi ekki fara nánari orðum um málið. Hann sagði það „fullkomlega“ sennilegt að lagt hefði verið á ráðin um ricin-árás. „Þeim er trúandi til að gera eitthvað þessu líkt.“
Sagt er að Tomas Petricek, utanríkisráðherra Tékka, hafi varað rússneska sendiherrann við afleiðingum þess ef eitthvað kæmi fyrir tékkneska stjórnmálamenn.