Home / Fréttir / Pompeo áréttar nána vináttu Dana og Bandaríkjamanna

Pompeo áréttar nána vináttu Dana og Bandaríkjamanna

Mette Frederiksen forætisráðherra og Mike Pompeo utanríkisráðherra 22. júlí 2020.
Mette Frederiksen forætisráðherra og Mike Pompeo utanríkisráðherra 22. júlí 2020.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti tvö nágrannaríki Íslands, Bretland og Danmörku, þriðjudag 21. júlí og miðvikudag 22. júlí. Hann hitti forsætisráðherra og utanríkisráðherra landanna. Á fundi Pompeos með Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, voru einnig utanríkisráðherrar Færeyja og Grænlands, Jenis av Rana og Steen Lynge. Eftir fund utanríkisráðherranna fjögurra hittust Pompeo og Foghed á tvíhliða fundi.

Fundinum í danska utanríkisráðuneytinu lauk skömmu eftir hádegi miðvikudaginn 22. júlí með blaðamannafundi þar sem Mike Pompeo og Jeppe Kofod sögðu frá velheppnuðum viðræðum sínum sem hefðu staðfest náið trúnaðarsamstarf ríkjanna innan NATO, Norðurskautsráðsins og um sameiginlega varðstöðu í þágu lýðræðislegra gilda.

„Við búum í traustum lýðræðisríkjum og báðar þjóðirnar vita að það kostar að tryggja frelsið sem við elskum. Og við ætlum að verja þetta frelsi,“ sagði Pompeo á blaðamannafundinum.

Hann lagði áherslu á að Danir væru „frábær“ samstarfsþjóð Bandaríkjamanna og stjórninni í Washington væri mikið í mun að eiga samstarf við Dani til að tryggja stöðugleika og lágspennu á norðurslóðum.

Fréttaskýrendur minna á að bæði dönskum og bandarískum stjórnvöldum er ljóst að alþjóðlegur áhugi á Grænlandi og norðurslóðum eykst – einkum hjá Kínverjum og Rússum.

Jeppe Kofod utanríkisráðherra og Mike Pompeo utanríkisráðherra 22. júlí 2020.
Jeppe Kofod utanríkisráðherra og Mike Pompeo utanríkisráðherra 22. júlí 2020.

Jeppe Kofod lagði áherslu að Danir og Bandaríkjamenn myndu áfram vinna náið saman að því að skapa friðsamlegar aðstæður á norðurslóðum, þar á meðal í Norðurskautsráðinu.

Hann fullvissaði einnig Pompeo um að Danir tækju áfram eins og hingað til virkan þátt í starfi NATO með liðsafla á landi, lofti og á hafi úti.

Pompeo heimsækir Danmörku tæpu ári eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlaði að sækja Dani heim en aflýsti komu sinni eftir skoðanaskipti vegna orða Trumps að Bandaríkjastjórn vildi kaupa Grænland. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, hafnaði slíkum áformum á afdráttarlausan hátt.

Jeppe Kofod sagði að ekki hefði verið minnst á þessar hugmyndir í samtali sínu við Pompeo:

„Um þetta var rætt í fyrra. Það var ekki á dagskrá í ár. Við áttum góðan og árangursríkan fund. Ekkert var rætt um málefni liðins ár,“ sagði danski ráðherrann.

Áhugi Bandaríkjastjórnar hefur síður en svo minnkað á undanförnum mánuðum. Í júní 2020 var bandarísk ræðisskrifstofa opnuð að nýju í Nuuk en henni var lokað á árinu 1953. Þar með var lagður traustari grunnur en áður að samstarfi Bandaríkjamanna við Grænlendinga á mörgum sviðum. Í tilefni af þessum þáttaskilum í samstarfi þjóðanna lögðu Bandaríkjamenn fram um 1.700 m. ísl. kr. til að styðja við ferðaþjónustu, enskukennslu og námu- og olíuvinnslu á Grænlandi.

Carla Sands sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn, tók á móti Pompeo á Kaupmannahafnarflugvelli og fór með honum til Mette Frederiksen forsætisráðherra í opinberan bústað ráðherrans í Marienborg fyrir norðan Kaupmannahöfn.

Pompeo kom beint frá Bretlandi þar sem fór hörðum orðum um kínverska kommúnistaflokkinn vegna aukins ofríkis hans í Hong Kong í krafti nýrra öryggislaga gegn íbúum borgríkisins sem vilja sem minnst samskipti við stjórnvöld á meginlandi Kína.

Það er til marks um versnandi sambúð stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kína að Bandaríkjastjórn gaf þriðjudaginn 21. júlí fyrirmæli um að Kínverjar skyldu loka ræðisskrifstofu sinni í Houston í Texasríki.

Kínastjórn svaraði strax af fullri hörku og boðaði gagnaðgerðir fengi ræðisskrifstofan ekki að starfa áfram.

Afstaða danska þingsins

Vegna komu Pompeos og fundar sem utanríkisráðherrar Danmerkur, Grænlands og Færeyja áttu með honum miðvikudaginn 22. júlí og þrír sín á milli þriðjudaginn 21. júlí birti danska ríkisútvarpið, DR, yfirlýsingu sem danska þjóðþingið sendi frá sér í fyrra í því skyni að treysta ríkjasamband landanna þriggja.

Þar segir í lauslegri þýðingu:

„Þjóðþingið ályktar að norðurslóðir [Arktis] beri svip stórveldakapphlaups og áréttar í því sambandi að Bandaríkin eru nánasti bandamaður konungsríkisins. Þjóðþingið fagnar vaxandi bandarískum áhuga á Grænlandi og hvetur til þess að ríkisstjórnin stuðli að því í samvinnu við naalakkersuisut [stjórn Grænlands] að áhuginn verði Grænlandi og Grænlendingum til góðs.

Þjóðþingið staðfestir að Grænlendingar geta – eins og Færeyingar – átt fundi með alþjóðlegum samstarfsaðilum um málaflokka sem þeir hafa tekið í sínar hendur auk þess sem yfirvöld ríkjasambandsins hafa umboð til að framkvæma stefnu konungsríkisins í utanríkis- öryggis- og varnarmálum, þar skulu viðræður sem hafa sérstaka þýðingu fyrir Grænland fara fram í nánu samráði við Grænlendinga eins og mælt er fyrir um í sjálfsstjórnarlögunum.

Þjóðþingið ályktar að þörf sé á að styrkja getu hersins til að framkvæma verkefni sín á norðurslóðum og á Norður-Atlantshafi. Þjóðþingið ályktar að þörf sé á að stofna til eftirlits með fjárfestingum í því skyni að greina hugsanlegar öryggishættur og að því sé stefnt að það nái til allra þriggja hluta ríkisins. Þjóðþingið ályktar að samstarfið í ríkjasambandinu skuli reist á trausti og gagnkvæmri virðingu.“

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …