Pólverjar vinna nú að því að setja upp þrefalda gaddavírs girðingu á um 200 km löngum landamærum sínum og rússnesku hólmlendurnar Kaliningrad við botn Eystrasalts.
Pólski varnarmálaráðherrann skýrði frá framkvæmdunum miðvikudaginn 2. nóvember og sagði þær nauðsynlegar til að verjast hugsanlegum tilraunum Rússa til að senda farandfólk yfir landamærin sem lið í fjölþátta stríði við Pólland.
Girðingin verður um 2.5 m á hæð og svæðið við hana um 3 m breitt. Þá verður settur um rafeindabúnaður til eftirlits auk myndavéla.
Í fyrra urðu veruleg vandræði á landamærum Belarús og Póllands þegar ráðamenn Belarús í Minsk stóðu fyrir flutningi þangað á farandfólki frá Mið-Austurlöndum sem síðan var sent að pólsku landamærunum með fyrirmælunum að fara yfir þau og leita hælis í Póllandi.
Fréttir eru um að Rússar hafi hvatt alþjóðleg flugfélög um að hefja áætlunarferðir frá Mið-Austurlöndum til Kaliningrad. Tilgangurinn er talinn vera að laða þangað farandfólk sem síðan yrði sent að landamærum Póllands og Litháens.
Fyrir utan þessar afleiðingar af sameiginlegum landamærum NATO-ríkjanna Póllands og Litháens með yfirráðasvæði Rússa í Kaliningrad, sem er helmingi minna landsvæði en Belgía, beinist athygli einnig Sulwaki-hliðinu. Það er leið sem tengir Pólland og Litháen og er talin hætta á að Rússar kunni að trufla umferð um það. Þetta er umferðaræð bíla og járnbrautarlesta frá Rússlandi um Belarús til Kaliningrad.