Home / Fréttir / Pólverjar og Rússar efla varnir á landamærum sínum

Pólverjar og Rússar efla varnir á landamærum sínum

Frá landamærum Póllands og Belarús.

Pólska ríkisstjórnin tilkynnti miðvikudaginn 9. ágúst frá því að 2.000 manna herlið yrði sent að landamærum Belarús til að styrkja gæslu þar. Landamærastofnun Póllands hafði óskað eftir 1.000 manna liðsauka en ríkisstjórnin ákvað að tvöfalda hann.

Vara-innanríkisráðherra landsins, Maciej Wasik, sagði við ríkisfréttastofuna PAP að gripið hefði verið til þessa ráðs til að stemma stigu við áformum stjórnvalda í Belarús um skipulagðar ólöglegar ferðir farandfólks yfir landamærin.

Í fréttum er bent á að ein af afleiðingum hernaðar Rússa gegn Úkraínumönnum sé að rússneskir Wagner-málaliðar hafi verið sendir til herbúða í Belarús eftir að þeir fengu sakaruppgjöf vegna uppreisnar þeirra í fáeina sólarhringa fyrr í sumar í Rússlandi.

Í byrjun þessarar viku hóf her Belarús einnig æfingar skammt frá landamærum Póllands og Litháens. Fyrir skömmu flugu tvær þyrlur Belarús í stutta stund inn í lofthelgi Póllands.

Stjórnin í Varsjá sagði að þar hefði verið um ögrun af ásetningi að ræða. Sumir saka að vísu ríkisstjórnina um að gera of mikið úr hættunni við landamærin vegna þingkosninga sem verða í Póllandi 15. október 2023.

Kannanir sýna að stjórnarflokkurinn, Laga- og réttlætisflokkurinn (PIS), sem hefur verið við völd frá árinu 2015, fengi aðeins meira fylgi, yrði kosið nú, en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Borgaravettvangur (PO).

Mikil spenna var á landamærum Póllands og Belarús árið 2020 þegar stjórnvöld í Minsk, höfuðborg Belarús, veittu farandfólki frá Mið-Austurlöndum og Afríku skipulagða aðstoð við að laumast ólöglega inn í Pólland. Pólverjar litu á þetta sem fjölþátta árás sem þeir ýttu af höndum sér.

Rússar efla landamæravarnir

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, hitti miðvikudaginn 9. ágúst yfirmenn rússneska hersins á fundi um ráðstafanir til að styrkja varnir á landamærum Rússlands vegna stuðnings Vesturlanda við Úkraínu og aðildar Svíþjóðar og Finnlands að NATO.

Í fréttum segir að Shoigu hafi rakið ítarlega fyrir fundarmönnum „ógnirnar“ gagnvart Rússlandi sem hann sagði að hefðu „margfaldast“ í vestri og norðvestri síðustu ár.

Með miklum hernaðarlegum stuðningi við „leppstjórnina í Kyív“ væru Vesturlönd í „óbeinu stríði“ við Rússland. Veruleg hætta væri á „stigmögnun átakanna“.

Varnarmálaráðherrann fullyrti einnig að aðild Finnlands og væntanleg aðild Svíþjóðar að NATO græfu „alvarlega undan stöðugleika“ þar sem sameiginleg landamæri Rússlands og NATO-ríkja lengdust um helming vegna þessa.

Þá beindi ráðherrann athygli að „hervæðingu Póllands“ sem væri orðið „helsta and-rússneska verkfæri Bandaríkjanna“.  Sakaði hann Pólverja um að ásælast vesturhluta Úkraínu án þess að færa nokkur rök fyrir ásökun sinni.

 

Heimild: Euronews

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …