Home / Fréttir / Pólverjar lofa að láta Úkraínuher í té skriðdreka

Pólverjar lofa að láta Úkraínuher í té skriðdreka

Gitanas Nausmenda, forseti Litháens, Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, og
Andrzej Duda, forseti Póllandd, á blaðamannafundi í Lviv miðvikudaginn 11. janúar 2023.

Pólverjar hafa ákveðið að senda Leopard skriðdreka til Úkraínu sem hluta af fjölþjóðlegri aðstoð sagði Andrzej Duda, forseti Póllands, miðvikudaginn 11. janúar.

Pólverjar hafa forystu um leita samkomulags meðal vestrænna ríkisstjórna um að Úkraínuher verði efldur á þennan hátt. Stjórnin í Kyív hefur lengi óskað eftir  hernaðarlegum stuðningi af þessu tagi.

„Komi til samstarfs yrði flokkur Leopard skriðdreka hluti þess,“ sagði pólski forsetinn í heimsókn til borgarinnar Lviv í vesturhluta Úkraínu. „Við viljum að þetta verði fjölþjóðlegt samstarf.“

Yfirleitt mynda 14 skriðdrekar einn flokk.

Duda sagðist vona að bráðlega mundu pólskir skriðdrekar og skriðdrekar annarra landa halda inn í Úkraínu.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, var við hlið pólska forsetans á blaðamannafundinum í Lviv og sagði að fleiri en eitt ríki yrði að eiga hlut að þessu máli annars fengju Úkraínumenn ekki nógu marga skriðdreka.

Ætli ríki sem eiga þýsk smíðuðu Leopard skriðdrekana að flytja þá í umsjá annars ríkis þarf að fá leyfi þýskra stjórnvalda til þess. Skriðdrekana hafa Þjóðverjar selt öðrum með slíku skilyrði.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari sagði mánudaginn 9. janúar að nauðsynlegt væri að samræma með bandamönnum afhendingu vopna til Úkraínu. Talsmaður þýskra stjórnvalda sagði hins vegar miðvikudaginn 11. janúar að hann vissi ekki um nein tilmæli um útflutningsleyfi vegna Leopard skriðdreka til Úkraínu.

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …