
Bandaríkjastjórn hefur samþykkt að selja Patriot-eldflaugavarnakerfi til Pólverja fyrir 10,5 milljarða dollara. Fréttaskýrendur telja að rússnesk stjórnvöld taki þessu illa. Gengið var frá samningi um söluna föstudaginn 17. nóvember.
Í samningnum felst að Pólverjar fá 208 PAC-3 varnarflaugar, 16 M903 skotpalla, fjórar AN/MPQ-65 ratsjár, fjórar stjórnstöðvar, varahluti, forrit og fylgihluti.
Bandaríska fyrirtækið Raytheon smíðar flaugarnar sem eru hannaðar til að finna, elta uppi og granda mannlausum loftförum (UAV), stýriflaugum, og skammdrægum eldflaugum.
Bandaríkjaþing verður að staðfesta samninginn og hefur 15 daga frá undirritun hans til að gera athugasemd við gerð hans. Talið er að þingið leggi blessun sína yfir þennan samning enda eru Pólverjar nánir bandamenn Bandaríkjamanna innan NATO.
Rússar komu árið 2016 fyrir Iskander-eldflaugum sem geta borið kjarnaodda í hólmlendu sinni, Kaliningrad, við landamæri Póllands. NATO-ríkin hafa svarað þessu með ýmsum aðgerðum.
Auk Pólverja ráða Hollendingar, Þjóðverjar, Spánverjar og Grikkir yfir Patriot-flaugum. Bandaríkjamenn fluttu nýleg Patriot-einingu til Litháens vegna fjölþjóðlegrar heræfingar sem þar fór fram.