Home / Fréttir / Póltitískar og fjárhagslegar sviptingar vegna stuðnings við Úkraínu.

Póltitískar og fjárhagslegar sviptingar vegna stuðnings við Úkraínu.

Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna komu saman til fundar í Kyív, höfuðborg Úkraínu, mánudaginn 2. október. Fundinum var lýst sem „sögulegum“ og snerist hann einkum um hvernig veita mætti Úkraínumönnum stuðning á komandi vetri til að verja land sitt og halda rússneska hernum frá því.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, hvatti til  þess að Vesturlönd stæðu saman að gerð áætlunar um hvernig gera ætti Úkraínumönnum kleift að verjast í vetur gegn „grimmilegum“ árásum Rússa á orkukerfi lands síns og önnur grunnvirki samfélagsins.

„Úkraínumenn þarfnast varnaráætlunar yfir vetrarmánuðina gegn loftárásum, sem tryggir þeim aflstöðvar og nauðsynlega orku,“ sagði Baerbok í færslu á X (áður Twitter) frá Kyív þar sem hún sat ESB-utanríkisráðherrafundinn.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði ráðherrafundinn haldinn í Kyív til að sýna „samstöðu“ með Úkraínumönnum í hernaðarátökunum við Rússa. Borrell sagði fundinn „óformlegan“, þar yrðu ekki teknar bindandi ákvarðanir. Þetta er í fyrsta sinn sem 27 utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna eru boðaðir til fundar í landi utan ESB.

Dmytro Kouleba, utanríkisráðherra Úkraínu, fagnaði fundarmönnum og sagði þá nú koma saman í landi sem yrði í framtíðinni hluti Evrópusambandsins.

Úkraína fékk í júní 2022 stöðu umsóknarlands að ESB. Ákvörðunina um það má rekja beint til innrásar Rússa í landið í febrúar 2022.

Síðan hefur framkvæmdastjórn ESB skilgreint sjö aðlögunarskilyrði fyrir Úkraíniu, þar ber hátt kröfu um aðgerðir gegn spillingu og umbætur á réttarkerfinu.  Þá er útflutningur á landbúnaðarafurðum frá Úkraínu einnig viðkvæmt mál gagnvart ýmsum ESB-löndum, ekki síst Póllandi. Undanfarið, í aðdraganda þingkosninga, hafa pólsk yfirvöld sett innflutningsbann á korn frá Úkraínu þvert á kröfur framkvæmdastjórnar ESB.

Katarina Mathernova, nýr sendiherra Úkraínu gagnvart ESB, telur raunhæft að búast við að Úkraína gangi í ESB árið 2030.

Talsmaður Kremlverja sagði á mánudaginn að „þreyta“ ef ekki „uppgjafartónn“ einkenndi í vaxandi mæli afstöðu Vesturlanda til stuðnings við Úkraínu. „Þreytan í stórundarlegum stuðningi við stjórnina í Kyív mun vaxa í einstökum löndum, einkum Bandaríkjunum,“ sagði Dmitri Peskov, upplýsingafulltrúi í Kreml en þó væri líklegt að Bandaríkjastjórn héldu áfram að blanda sér í átökin.

Bandaríkjamenn deila

Laugardaginn 30. september tókst bandarískum þingmönnum á elleftu stundu að ná samkomulagi til bráðabirgða um fjárveitingar til að hindra lokun í bandaríska alríkisstjórnkerfinu.

Samkomulagið nær ekki til fjárhagslegs stuðnings við varnir Úkraínu en til þessa hefur Bandaríkjastjórn veitt meira en 110 milljarða dollara í þessu skyni, meira en nokkur önnur erlend ríkisstjórn.

Á lokamínútum samningaviðræðnanna um fjárlögin fyrir helgi var ákveðið að skilja eftir ósk um að Bandaríkjaþing samþykkti enn 6 milljarða dollara í hernaðaraðstoð til Úkraínu.

Sumir repúblíkanar telja að alveg eigi að skrúfa fyrir fjárstuðning við Úkraínu, aðrir vilja tengja slíkar fjárveitingar og aukin útgjöld til gæslu bandarískra landamæra.

Demókratinn Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lofað Úkraínumönnum að bráðlega fái þeir 24 milljarða dollara frá Washington. Loforðið verður nú að þrætuepli í flokkspólitískum deilum á Bandaríkjaþingi.

Uppbrot í Slóvakíu

Laugardaginn 30. september fékk Smer-flokkurinn sem Robert Fico leiðir flest atkvæði í þingkosningum í Slóvakíu. Kann þetta að leiða til stjórnarskipta iílandinu.

Fico er andvígur frekari stuðningi Slóvaka til Úkraínu og hallar sér að Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem oft hefur lýst óvild í garð Úkraínustjórnar og hefur ekki sagt skilið við Vladimir Pútin Rússlandsforseta á sama hátt og stjórnarleiðtogar annarra ESB-landa.

Litið er á Fico sem hliðhollan Rússum. Óvíst er hvort honum tekst að mynda ríkisstjórn en hann hefur áður verið forsætisráðherra Slóvakíu. „Almenningur í Slóvakíu stendur frammi fyrir stærri vanda en Úkraínu,“ er haft eftir Fico en erlendar fréttaveitur lýsa honum sem popúlista, það er lýðskrumara.

Vopn frá Frakklandi

Í liðinni viku sömdu nokkrir franskir hergagnaframleiðendur við Úkraínustjórn um að sjá henni fyrir vopnum. Gerðist þetta í tengslum við fjölþjóðlega kaupstefnu vopnaframleiðenda sem stjórnin í Kyív skipulagði.

Nexter, frönsk deild innan frönsk-þýsku samsteypunnar KNDS, ætlar að láta í té sex Caesar-fallbyssur til viðbótar að sögn franska hermálaráðuneytisins. Byssan er á flutningabíl og með henni má skjóta 155 mm kúlum allt að 40 km.

Arquus, annar franskur framleiðandi, ætlar að smíða og sinna viðhaldi á brynvörðum ökutækjum en meira en 100 þeirra hafa þegar verið seld frá Frakklandi til Úkraínu.

Þá nær franski samningurinn einnig til vélmenna til sprengjuleitar, vatnaflutningatækja og dróna.

Óljóst er hvernig á að fjármagna samninginn en franska AFP-fréttastofan segir að það verði hugsanlega gert af franska ríkinu.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …