Home / Fréttir / Pólskir ráðamenn reiðir forseta ESB-þingsins vegna ásakana um valdarán

Pólskir ráðamenn reiðir forseta ESB-þingsins vegna ásakana um valdarán

beata szydło

Pólskir ráðamenn hafa brugðist hart við ummælum sem Þjóðverjinn Martin Schulz, forseti ESB-þingsins, lét falla um stjórnarhætti í Póllandi en hann líkti þeim við „valdarán“.

Martin Schulz sagði við útvarpsstöðina Deutschlandfunk mánudaginn 14. desember: „Það sem er að gerast í Póllandi ber yfirbragð valdaráns (coup d‘etat) og er dramatískt. Ég tel víst að í þessari viku eða í síðasta lagi í janúar neyðumst við til að ræða þetta ítarlega á ESB-þinginu.“

Með orðum sínum vísaði hann til þess sem gerst hefur frá kosningunum í október þegar Laga- og réttlætisflokkurinn fékk hreinan meirihluta á þingi. Flokkurinn hefur nú gert ráðstafanir til að auka áhrif sín í stjórnlagadómstóli landsins með aðferð sem gagnrýnendur segja að sé ólýðræðisleg.

Efnt hefur verið til mótmæla í Póllandi gegn skipun ríkisstjórnarinnar á fimm dómurum í dómstólinn sem dæmir hvort brotið sé gegn stjórnarskránni.

Ummæli Schulz vöktu reiði stjórnvalda í Varsjá. Beata Szydlo forsætisráðherra sagði orð þingforsetans „óviðunandi“ og hún vænti þess að hann bæðist afsökunar.

Witold Waszczykowski utanríkisráðherra sagði tal um valdarán „tilefnislaust og þess vegna ábyrgðarlaust“. Fól hann sendiherra Póllands gagnvart ESB að ræða málið við Schulz.

„Svo háttsettur stjórnmálamaður ætti að vera betur upplýstur áður en hann gefur opinberar yfirlýsingar,“ sagði í yfirlýsingu utanríkisráðherrans:

„Hann ætti að minnsta kosti að vita að nýlega var efnt til frjálsra og lýðræðislegra kosninga í Póllandi og enginn ágreiningur er um úrslit þeirra og um þessar mundir fara einfaldlega fram eðlilegar umræður á stjórnmálavettvangi um málefni stofnana ríkisins.“

Þetta er í annað sinn sem árekstur verður á milli Schulz og pólsku ríkisstjórnarinnar sem hefur aðeins setið í rúman mánuð.

Ríkisstjórnin spornar gegn komu innflytjenda til Póllands og í nóvember gagnrýndi Schulz stefnu hennar í útlendingamálum og sagði hana sýna skort á samstöðu við lausn flóttamannakrísunnar. Mariusz Błaszczak innanríkisráðherra sagði þá að ummæli Schulz væru „hneykslanleg“ og „enn eitt dæmið um þýskan hroka“.

Heimild: The Guardian

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …