Home / Fréttir / Pólskar orrustuþotur í viðbragðsstöðu gegn Rússum

Pólskar orrustuþotur í viðbragðsstöðu gegn Rússum

Pólsk stjórnvöld segja að ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi í lofthelgi Póllands þegar rússneskum skotflaugum rigndi yfir Úkraínu laugardaginn 25. maí.

Pólskar orrustuþotur voru sendar á loft til að verja lofthelgi landsins fyrir rússneskum skotflaugum sem beint er að vesturhluta Úkraínu. Voru þoturnar sendar á loft og í varðstöðu laugardaginn 25. maí í suðausturhluta Póllands sem liggur að Úkraínu.

Engin flauganna barst inn yfir Pólland en Rússar gerðu árás á stóra verslunarmiðstöð í næststærstu borg Úkraínu, Kharkiv, í norðurhluta landsins. Þar týndu 12 manns lífi og 43 særðust.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði loftárás Rússa „staðfestingu á rússneskri geðveiki“.

Aðgerðastjórn pólska hersins tilkynnti sunnudaginn 26. maí að þá hefði varnaraðgerðinni lokið en viðbragðsstigið yrði áfram hátt. Ákvörðun hefði verið tekin um að kalla orrustuþoturnar til heimavalla þeirra þar sem Rússar sendu ekki lengur langdrægar flaugar á skotmörk í vesturhluta Úkraínu. Pólski herinn fylgdist náið með því sem gerðist á úkraínsku yfirráðasvæði og væri ávallt við því búinn að tryggja öryggi í lofthelgi Póllands.

Pólski herinn hefur bent íbúum í nágrenni Úkraínu á að þeir geti búist við auknum hávaða frá flugvélum pólska hersins og bandamanna hans.

Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, sagði 25. maí við The Guardian að pólska ríkisstjórnin styddi að Úkraínuher yrði heimilað að beita vestrænum vopnum til árása á skotmörk í Rússlandi.

Hann sagði einnig að fyrir Rússum vekti að grafa undan stöðugleika í Evrópu. Fyrir þeim vekti að hafa áhrif á úrslit kosninganna til ESB-þingsins 9. júní.

Í mars sl. fór rússnesk skotflaug á leið til úkraínsku borgarinnar Lviv um pólska lofthelgi áður en hún náði til skotmarks síns.

Pólverjar hafa eflt varnir sínar við landamæri Belarús en bandamenn Rússa þar hafa sent farandfólk í stórum hópum til að ryðjast inn í Pólland og biðja þar um hæli.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …