Home / Fréttir / Pólska ríksstjórnin mildari í garð Breta innan ESB fái hún NATO-herstöðvar

Pólska ríksstjórnin mildari í garð Breta innan ESB fái hún NATO-herstöðvar

Witold Waszczykowski, utanríkisráðherra Póllands.
Witold Waszczykowski, utanríkisráðherra Póllands.

Reuters-fréttastofan hafði eftir Witold Waszczykowski, utanríkisráðherra Póllands, sunnudaginn 3. janúar að Pólverjar kynnu að sætta sig við þá málamiðlun að Bretar fengju að skerða réttindi ESB-farandfólks í Bretlandi ef breska ríkisstjórnin beitti sér fyrir að NATO héldi úti herafla í Mið-Evrópu.

Eftir að fréttin birtist sendi pólska utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu um að pólsk stjórnvöld gætu sætt sig við skerðingu félagslegra réttinda í Bretlandi næðu þau til allra sem byggju í landinu. Aldrei yrði fallist á mismunun í þessu efni.

Vegna þess að hundruð þúsunda Pólverja búa í Bretlandi hefur pólska ríkisstjórnin gagnrýnt hvað harðast áform sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur kynnt um skerðingu á félagslegum réttindum farandfólks í Bretlandi. Er þetta eitt af áhersluatriðum Camerons í viðræðum um nýja ESB-aðildarskilmála Breta.

Í desember var Cameron í Varsjá og ræddi við stjórnarherra þar án þess að hljóta nokkurn hljómgrunn varðandi réttindi farandfólksins.

Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, sagði að ræða yrði málið nánar. Leiðtogafundur NATO hefur verið boðaður í Varsjá í júlí og vilja pólsk stjórnvöld knýja fram samþykki við áherslumálum sínum í tengslum við fundinn eða á honum.

Waszczykowski sagði að krafa Breta og staðan innan NATO væru rædd í sömu andrá. Þegar hann var spurður hvort Bretar gætu boðið Pólverjum eitthvað sem mildaði afstöðu þeirra svaraði utanríkisráðherrann:

„Að sjálfsögðu Bretar gætu boðið Pólverjum eitthvað á sviði alþjóðaöryggis. Við teljum okkur enn annars flokks aðildarríki NATO vegna þess að í Mið-Evrópu er ekki, fyrir utan sýndar-liðsafla, neinn umtalsverður herafli bandamanna okkar eða varnarmannvirki, þetta veitir Rússum skjól til að leika leiki á svæðinu.“

Á árinu 2014 sagði þáverandi utanríkisráðherra Póllands að hann vildi hafa tvo þungvopnuð stórfylki NATO í landinu – það er 3.000 til 5.000 menn – til að bregðast við íhlutun Rússa í Úkraínu. Ráðamenn í Moskvu segjast ekki veita aðskilnaðarsinnum vinveittum Rússum neinn virkan stuðning í Úkraínu.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …