Home / Fréttir / Pólska ríkisstjórnin vill fasta viðveru Bandaríkjahers

Pólska ríkisstjórnin vill fasta viðveru Bandaríkjahers

 

Bandarískur hermaður í Póllandi.
Bandarískur hermaður í Póllandi.

Mariusz Blaszczak, varnamálaráðherra Póllands, sagði mánudaginn 28. maí að hann hefði rætt við bandaríska embættismenn um að bandarískur herafli hefði fasta viðveru í Póllandi til mótvægis við hættuna af rússneskri árás.

Ráðherrann sagði að hann hefði kynnt þessar óskir með vísan til ólögmætrar innlimunar Rússa á Krímskaga og stuðnings Rússa við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

„Þessi tilmæli okkar hafa orðið til þess að bandaríska öldungadeildin hafði samband við varnarmálaráðuneytið og bað um mat á fastri viðveru bandarískra hermanna í Póllandi,“ sagði Mariusz Blaszczak við Radio 1 í Póllandi. „Slík viðvera mun skipta miklu af því að hún heldur aftur af andstæðingnum.“

Á fréttagáttinni Onet.pl segir að pólsk stjórnvöld bjóði allt að tveggja milljarða dollara framlag til að búa til aðstöðu fyrir bandarískan fastaher í Póllandi. Nú koma bandarískir hermenn til stuttrar dvalar hverju sinni í Póllandi.

Dmitríj Peskov, talsmaður Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta, brást illa við þessum ummælum pólska ráðherrans og sagði að hernaðarleg návist NATO við rússnesku landamærin mundi „auðvitað ekki á neinn hátt stuðla að öryggi og stöðugleika í álfunni“.

Hann sagði við TASS-fréttastofuna mánudaginn 28. maí að Rússar mundu „auðvitað grípa til gagnráðstafana … til að skapa að nýju jafnræði sem hvað eftir er raskað þennan hátt“.

 

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …