Home / Fréttir / Póllandsforseti segir Schengen-samstarfið einn helsta ávinning ESB-aðildar

Póllandsforseti segir Schengen-samstarfið einn helsta ávinning ESB-aðildar

Andrzej Duda, forseti Póllands.
Andrzej Duda, forseti Póllands.

 

Andrzej Duda, forseti Póllands, sagði í sjónvarpsviðtali þriðjudaginn 2. febrúar að frjáls för fólks og frelsi til viðskipta og þjónustu væru meðal mikilvægustu grundvallarþátta Evrópusambandsin og Schengen-samstarfið meðal þess mikilvægasta sem áunnist hefði með samstarfinu innan ESB.

Rætt var við forsetann í tilefni af fréttum um drög að samkomulagi sem tryggði sérstöðu Breta en þó áframhaldandi aðild þeirra að ESB. Ein af meginkröfum Davids Camerons, forsætisráðherra Breta, hefur verið að Bretar geti takmarkað frjálsa för með því að skerða félagsleg réttindi þeirra sem til landsins koma, þar eru Pólverjar fjölmennir.

Pólski forsetinn sagði að öll mismunun varðandi þá sem njóta réttarins til frjálsrar farar mundi kalla fram andstöðu í mörgum ESB-löndum.

Duda taldi of snemmt að segja álit sitt á sérréttindum Breta, ekki lægi fyrir hvað í þeim fælist, viðræðum væri ekki lokið þótt Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hefði kynnt meginatriði væntanlegs samkomulags.

Forsetinn sagðist líta á Schengen-svæðið sem eitt af því mikilvægasta sem áunnist hefði með ESB-samstarfinu. „Ég tel að frá sjónarhóli hins almenna pólska ríkisborgara sé það tákn frelsis innan ESB: að við getum farið yfir landamæri, án þess að verða þess sérstaklega vör, og enginn skiptir sér af okkur. Það yrði mjög slæmt ef Schengen-samstarfið yrði að engu,“ sagði Duda.

David Cameron heimsækir Varsjá föstudaginn 5. febrúar og ræðir við Beata Szydło, forsætisráðherra Póllands.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …