Home / Fréttir / Pólland: Þrír ráðherrar reknir og þingforseti segir af sér vegna hneyksla

Pólland: Þrír ráðherrar reknir og þingforseti segir af sér vegna hneyksla

Radoslaw Sikorski
Radoslaw Sikorski

Í júní 2014 birti pólska fréttastofan Wprost upptökur af einkasamtölum pólskra ráðherra sem ræddu meðal annars leiðir til að þrýsta á seðlabankastjórann og létu auk þess niðrandi orð falla um bandalagsríkin Bandaríkin og Þýskaland.

Í júní 2015 birti pólskur kaupsýslumaður nýjar upptökur. Hefur þetta leitt til þess að þrír ráðherrar og forseti þingsins hafa neyðst til að segja af sér. Stjórnarflokkurinn Borgaralegur vettvangur lendir í stórvandræðum vegna þessa en í október 2015 eru þingkosningar í Póllandi. Af niðurstöðum kannana má ráða að stjórnarandstöðuflokkurinn Lög og réttlæti sigri í kosningunum.

Ewa Kopacs, forsætisráðherra Póllands úr Borgaralegum vettvangi, rak miðvikudaginn 10. júní einkavæðingarráðherra Wlodzimierz Karpinski, heilbrigðisráðherra Bartosz Arlukowicz og íþróttaráðherra Andrzej Biernat fyrirvaralaust úr embættum þeirra. Símtöl þeirra allra höfðu verið hleruð á ólögmætan hátt. Skömmu síðar tilkynnti Radoslaw Sikorski að hann segði af sér embætti þingforseta, áður gegndi hann embætti utanríkisráðherra. Allir þessir menn eru í Borgaralegum vettvangi.

Pólski kaupsýslumaðurinn Zbiegniew Stonoga birti nýjustu upplýsingarnar á Facebook. Afsagnirnar má þó rekja til þess sem birt var á árinu 2014 og olli miklu uppnámi í pólskum stjórnmálum. Þar má meðal annars fylgjast með því þegar Bartlomiej Sienkiewicz innanríkisráðherra reynir af fá Marek Belka seðlabankastjóra til að hressa upp á fjárlagafrumvarpið.

Í tímaritinu Wprost birtist einnig útdráttur úr öðru samtali þar sem Radoslaw Sikorski, þáverandi utanríkisráðherra, lýsir David Cameron, forsætisráðherra Breta, sem „óhæfum“ og segir tengsl Póllands og Bandaríkjanna „einskis virði“.

„Þau eru beinlínis skaðleg því að þau veita falska öryggiskennd. Tóm þvæla. Við lendum upp á kant við Þjóðverja og Rússa og höldum að okkur sé borgið bara af því að við höfum kjassað Bandaríkjamenn,“ segir Sikorski í einu hleraða einkasamtalinu sem vakti reiði meðal bandamanna Pólverja.

Jaroslaw Kaszcynski, leiðtogi hins þjóðernissinnaða íhaldsflokks Laga og réttlætis, krafðist þess þegar á síðasta ári að ráðherrarnir sem hlut áttu að máli segðu af sér. Þá var Donald Tusk, núverandi forseti leiðtogaráðs ESB, forsætisráðherra Póllands og náði vantraust á hann og stjórn hans ekki fram að ganga á pólska þinginu.

Borgaralegur vettvangur tapaði illa í nýlegum forsetaskosningum og er óvænt útreið hans þar meðal annars rakin til hlerunarhneykslisins. Andrzej Duda, frambjóðandi Laga og réttlætis, sigraði í forsetakosningunum og varð það endalega til þess að hreinsun var gerð á æðstu stöðum innan Borgaralegs vettvangs. Hvort hún nægir til að rétta hlut flokksins fyrir þingkosningarnar í október er talið ólíklegt.

Heimild: Berlingske Tidende

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …