Home / Fréttir / Pólland: Spenna magnast gegn Hvíta-Rússlandi

Pólland: Spenna magnast gegn Hvíta-Rússlandi

Pólskir landamæraverðir á ferð við gaddavír á landamærunum gagnvart Hvíta-Rússlandi.

Pólsks þingið hefur samþykkt neyðarlög með heimildum um herta vörslu á landamærunum gagnvart Hvíta-Rússlandi vegna straums farandfólks þaðan og yfirvofandi heræfinga Hvít-Rússa undir forystu Rússa.

Sett er bann við fjölmennum samkomum og þá gilda ferðatakmarkanir í 30 daga í nágrenni landamæranna. Íbúar um 200 bæja í innan við 3 km fjarlægð frá landamærunum verða að lúta ákvæðum neyðarlaganna.

Pólverjar saka stjórnvöld Hvíta-Rússlands um að lokka farandfólk til lands síns með falslofurðum um að leið inn í ESB sé þar með opin. Hvíta-Rússland er utan ESB en á sameiginleg landamæri með þremur ESB-ríkjum: Lettlandi, Litháen og Póllandi.

Pólskir stjórnarandstöðuþingmenn töldu ákvæði neyðarlaganna of hörð. Sumir fullyrtu að með ferðabanni á blaðamenn við landamærin væri verið að skapa landamæravörðunum skjól til að reka farandfólk til baka inn í Hvíta-Rússland án þess að af því bærust fréttir.

Farandfólki frá Írak, Afganistan og öðrum löndum í Mið-Austurlöndum og Asíu hefur fjölgað gífurlega við landamæri ESB-ríkjanna þriggja frá því í sumarbyrjun.

Brusselmenn saka Alexander Lukasjenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, um að ýta undir straum farandfólks að ESB-landamærunum til að hefna fyrir refsiaðgerðir sem hann er beittur vegna stjórnarhátta hans.

Þegar frumvarpið að neyðarlögunum var til afgreiðslu á pólska þinginu mánudaginn 6. september sagði Mateusz Morawiecki forsætisráðherra: „Við stöndum frammi fyrir víðtækum pólitískum ögrunum.“

Fyrir utan straum farandfólksins ræddi hann um miklar sameiginlegar heræfingar Hvít-Rússa og Rússa sem hefjast skammt frá pólsku landamærunum föstudaginn 10. september. Þetta eru Zapad-2021 heræfingarnar sem snúast um að verja Hvíta-Rússland og Rússland gegn árásarher.

Rússneska fréttastofan TASS segir að um 200.000 manns taki þátt í æfingunum auk að minnsta kosti 80 flugvéla og þyrlna. Skipuleggjendur æfinganna segja þær aðeins snúa að vörnum, ekki sóknaraðgerðum.

Stjórnvöld Póllands, Eystrasaltsríkjanna og Úkraínu telja þó fulla ástæðu til að hafa varann á vegna æfinganna. Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagði á þingi að ekki væri unnt að útiloka árás, það væri ekki aðeins unnt að líta á stöðuna sem stjórnmáladeilu.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …