Home / Fréttir / Pólland: Rússneski sendiherrann vekur reiði og hneykslan

Pólland: Rússneski sendiherrann vekur reiði og hneykslan

Sergej Andreev, sendiherra Rússa í Póllandi.
Sergej Andreev, sendiherra Rússa í Póllandi.

Rússneski sendiherrann í Póllandi hefur vakið reiði og hneykslan meðal Pólverja með yfirlýsingum um að Pólverjar sjálfir beri sinn hluta ábyrgðar á upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Pólverjum er mjög misboðið vegna þessa, þeir líta á þjóð sína sem helsta fórnarlamb stríðsins. Þar féllu hlutfallslega flestir miðað við fjölda landsmanna.

sendiherra segir að Pólverjar hafi stuðlað að því að ekki reyndist unnt að sameinast í andstöðu við nazista, þeir séu þess vegna „meðábyrgir fyrir síðari heimsstyrjöldinni“.

Sendiherrann segir einnig að réttmætt hafi verið fyrir sovéska herinn að ráðast inn í Pólland eftir að Hitler og Stalín sömdu með leynd um að skipta Póllandi á milli sín.

„Það var gert til að tryggja öryggi Sovétríkjanna,“ segir Sergej Andreev. Hann segir einnig að Rússar hafi viljað hafa „vinsamlegt land við landamæri sín“.

Pólska utanríkisráðuneytið hefur brugðist af þunga við yfirlýsingu sendiherrans.

„Þessi útlegging sem kynnt er af æðsta opinbera fulltrúa rússneska ríkisins í Póllandi er rangtúlkun á sögulegum sannindum og þar birtist hluti þess lygilegasta sem borið var á borð um það sem gerðist og er í anda útlegginga á tíma Stalíns og kommúnista,“ segir í yfirlýsingunni.

Ráðuneytið gagnrýnir einnig harðlega tilraunir sem það segir sendiherrann gera til að réttlæta fangelsanir, brottflutninga og aftökur Rússa á Pólverjum.

„Við teljum þetta virðingarleysi fyrir minningu fórnarlamba glæpaverka leynilögreglunnar, NKVD, hún fór þar að fyrirmælum frá æðstu stjórnendum Sovétríkjanna,“ segir í yfirlýsingu pólska utanríkisráðuneytisins.

Allt að sex milljón Pólverjar – þar af þrjár milljónir gyðinga – voru drepnir í stríðinu, rúmlega sjötti hluti þjóðarinnar.

Eftir að Rauði herinn lagði Pólland undir sig voru rúmlega 200.000 pólskir hermenn sendir til Síberíu. Í fjöldamorðunum í Katyn-skógi myrtu rússneskr hermenn tæplega 22.000 pólska foringja og hermenn. Allt fram að falli Berlínarmúrsins 1989 sökuðu Rússar nazista um að hafa staðið að fjöldaaftökunum í Katyn.

Heimild: ritzau/AFP

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …