Home / Fréttir / Pólland: Rússneski sendherrann hafnar sögulegum staðreyndum með ásökunum um stríðið

Pólland: Rússneski sendherrann hafnar sögulegum staðreyndum með ásökunum um stríðið

 

Rússar myrtu þúsundir pólskra herforingja í Katyn-skógi.
Rússar myrtu þúsundir pólskra herforingja í Katyn-skógi.

Ummæli rússneska sendiherrans í Póllandi um að Pólverjar geti kennt sjálfum sér um að síðari heimsstyrjöldin hófst hefur vakið undrun og reiði víðar en í Póllandi. Þannig sendi David Harris, framkvæmdastjóri AJC-samtakanna sem taka málstað gyðinga frá sér yfirlýsingu sunnudaginn 27. september. Birtist hún hér í lauslegri þýðingu:

„Sergeij Andreev, sendiherra Rússlands í Póllandi, gaf óvænta yfirlýsingu þegar hann fullyrti á föstudaginn (25. september) að Pólverjar bæru „að hluta ábyrgð“ á upphafi síðari heimsstyrjarldarinnar. Þetta er fráleitt og í raun ætti engum að vera það betur ljóst en ráðamönnum í Moskvu.

Rifjum upp að Pólverjar voru fyrsta skotmark hers nazista sem réðst inn í landið hinn 1. september 1939 og hratt þar með af stað síðari heimsstyrjöldinni. Bretar og Frakkar lýstu hins vegar stríði á hendur Þjóðverjum tveimur dögum síðar og stóðu þar með við öryggisskuldbindingu sína gagnvart Pólverjum. Pólski herinn snerist af hörku gegn innrásarliðinu sem var fjölmennara, betur vopnum búið og kænna en hann.

Á þessum tíma voru Sovétmenn bandamenn þýskra nazista. Hinn aldræmdi Molotov-Ribbentrop sáttmáli hafði verið undirritaður hinn 23. ágúst 1939, í skjóli hans treystu ráðamenn í Berlín að þeir ættu ekki í höggi við Sovétmenn í bráð og lengd.

Þá bætir ekki málstað Andreevs sendiherra að hann lítur algjörlega fram hjá því að Rússar réðust inn í Pólland 16 dögum eftir innrás Þjóðverja, þeir hernámu austurhluta Póllands hinn 17. september 1939. Hernámsliðið handtók óteljandi marga Pólverja og flutti í fangabúðir í Sovétríkjunum. Tilefnislaus aðgerð Stalíns leiddi auk þess til varanlegrar breytingar á austur landamærum Póllands.

Þá ber þess að geta að vorið 1940 myrti NKVD, leynilögregla Sovétríkjanna, þúsundir pólskra herforingja í Katyn-skógi. Það tók hins vegar ráðamenn í Moskvu rúmlega fimmtíu ár að viðurkenna þann augljósa og sára sannleika.

Í júní 1941 þegar Hitler snerist gegn Stalín og réðst inn i Sovétríkin með aðgerðinni Operation Barbarossa snerust Sovétmenn til liðs við herafla Vesturlanda og urðu grimmilegir andstæðingar þriðja ríkisins. Sovéski herinn skipti algjörum sköpum við að kveða niður draum Hitlers um 1000 ára ríkið, engin þjóð varð fyrir þyngri hernaðarlegum og borgaralegum skaða en Rússar.

Þegar rússneski sendiherrann horfir fram hjá mjög sársaukafullri sögu áranna 1939 til 1941, sem reist er á traustum heimildum, og heldur því þess í stað fram að Pólverjar hafi verið sjálfum sér og öðrum verstir snýr hann vel rökstuddum sögulegum staðreyndum á haus. Í því felst einnig augljós tilraun til að beina athyglinni frá yfirgangsmönnunum að fórnarlömbunum.

Við getum ekki annað en vonað að yfirboðaðar hans í Moskvu verði fljótir til að segja sig frá ummælum sendiherrans, svo að ekki verði álitið að skoðun hans sé í raun opinber stefna Rússlands á líðandi stundu.“

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …