Home / Fréttir / Pólland: Markviss stefna tryggði PiS sigur

Pólland: Markviss stefna tryggði PiS sigur

Jaroslaw Kasczynski, leiðtogi flokks Laga og réttlætis (PiS).
Jaroslaw Kasczynski, leiðtogi flokks Laga og réttlætis (PiS).

Úrslit þingkosninganna í Póllandi þurfa ekki að koma neinum á óvart segir Bartosz Dudek, stjórnmálaskýrandi þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle (DW), mánudaginn 14. október. Það hafi verið markmið Jaroslaws Kasczynskis, leiðtoga flokks Laga og réttlætis (PiS), að ná til „venjulegs fólks“. Honum tókst það í kosningunum sunnudaginn 13. október.

Fylgi PiS jókst úr 37,6% fyrir fjórum árum í 44% núna. Dudek segir það umbun fyrir störf ríkisstjórnarinnar undanfarin fjögur ár. Hún hafi fylgt gjöfulli velferðarstefnu. Það hafi verið markmið PiS að ná til kjósenda í smábæjum og þorpum, fólks sem taldi sig afskipt á miklu breytingaárunum. Barnabætur hafa verið auknar, 13. og 14. mánuður verið greiddur ellilífeyrisþegum, skattaívilnanir veittar til fólks undir 26 ára aldri og lágmarkslaun allra hafi verið hækkuð. Öllu hafi þessu verið hrundið staðfastlega í framkvæmd undir merkjum föðurlandsástar. Þakkirnar birtust í kjörkössunum.

Þá nýtur PiS heilshugar stuðnings kaþólsku kirkjunnar. Segir Dudek góðan sigur flokksins annars hafa verið óhugsandi. Þetta samstarf haldi áfram og kalli á and-kirkjulega afstöðu vinstrisinna.

Sigur Kaczynskis sé alvarlegt áfall fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, Borgaralegan vettvang. Hann eigi enga öfluga forystumenn og flokknum hafi ekki tekist að endurnýja stefnu sína eftir ósigur í kosningunum árið 2015.

Í kosningaskýringu sinni minnir Dudek á að margir óttist að sterk staða PiS grafi undan pólsku lýðræði. Í stað þess komi „ófrjálslynt“ lýðræði og hálfgert ofstjórnarríki.

Kaczynski, raunverulegur stjórnandi landsins, hafi undanfarin fjögur ár beitt ríkisvaldinu til að þrengja að sjálfstæðum stofnunum eins og dómstólum og fjölmiðlum. Hann ástundi átakastjórnmál og vilji ekkert hafa með stjórnarandstöðuna að gera þótt slíkt sé nauðsynlegur liður lýðræðislegra stjórnarhátta.

Í krafti þess sterka umboðs sem PiS fékk telur Dudek að Pólverjar verði áfram erfiðir í samstarfi innan ESB og við Þjóðverja. Til ágreinings komi örugglega innan ESB herði PiS á aðgerðum sínum í málefnum dómstóla og fjölmiðla eins og boðað hefur verið og lofað var fyrir kosningar. Þá var því einnig lofað að fara fram á stríðsskaðabætur frá Þjóðverjum vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Þýskum stjórnvöldum dugi ekki að svara með orðunum „málinu er lokið“.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …