
Flokkur laga og réttar hlaut 235 sæti af 460 í neðri deild pólska þingsins í kosningum sunnudaginn 25. október. Hann hefur því hreinan meirihluta að baki ríkisstjórnar sem hann myndar. Aldrei fyrr frá hruni kommúnismans hefur pólskur stjórnmálaflokkur náð þessum árangri.
Stefna flokksins er reist á íhaldssömum kaþólskum viðhorfum og meiri ríkisafskiptum í efnahagslífinum í þágu fjölskyldna og fátækra. Í 26 ár þar til nú hafa minnihlutastjórnir setið í Póllandi, reistar á málamiðlun milli tveggja eða fleiri stjórnmálaflokka.
Flokkurinn hlaut einnig meirihluta í öldungadeildinni, þar geta menn breytt eða hafnað lagafrumvörpum. Í sumar sigraði frambjóðandi flokksins, Andrzej Duda, í forsetakosningunum.
Flokkurinn lofaði að hverfa frá ákvörðun síðustu ríkisstjórnar um að hækka eftirlaunaaldurinn í 67, vill flokkurinn að hann verði 60 ár fyrir konur og 65 ár fyrir karla.
Þá vill flokkurinn hækka skatta á stórfyrirtæki og banka en ýta undir smáfyrirtæki og fjölskyldur með barnabótum og ókeypis lyfjum eftir 75 ára aldur.
Gagnrýnendur segja að með eyðslustefnu sinni skaði flokkurinn fjárhag ríkisins. Af hálfu flokksins er sagt að aukin félagsleg útgjöld verði fjármögnuð með bættri skattheimtu og hærri sköttum á stórverslanir og banka, flest fyrirtækin eru í eigu útlendinga.
Þess er vænst að ný ríkisstjórn setjist að völdum um miðjan marz.
Flokkur laga og réttar hlaut 37,6% atkvæða í kosningunum sunnudaginn 25. október.