Home / Fréttir / Pólland fái forystuhlutverk í Evrópu – Pútin tapar fyrir NATO

Pólland fái forystuhlutverk í Evrópu – Pútin tapar fyrir NATO

Radek Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, flytur stefnuræðu á þingi, 24. apríl 2024.

Radek Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, hvatti til þess í stefnuræðu á pólska þinginu fimmtudaginn 25. apríl að NATO-ríkin efdu varnir sínar og viðbúnað og sagði að pólska ríkisstjórnin vildi í hóp ríkja sem gegndu lykilhlutverki við töku ákvarðana innan Evrópusambandsins.

Sikorski sagði að ráðamenn í Moskvu yrðu að átta sig á að gerðu þeir árás á NATO myndu þeir tapa. NATO yrði hins vegar að efla eigin varnir.

Pólverjar stóðu á hliðarlínunni innan ESB undir ríkisstjórninni sem féll eftir þingkosningar í fyrra haust. Hún átti í útistöðum við framkvæmdastjórn ESB vegna ágreinings um ýmis málefni, til dæmis varðandi stöðu fjölmiðla og dómstóla. Stjórnin lagði á hinn bóginn rækt við sterk tengsl við Bandaríkin.

Sikorski benti á að Pólverjar hefðu margvíslegan hag af aðildinni að ESB og þess vegna skipti svo miklu að Pólverjar yrðu að nýju í þeim hópi þjóða sem mótuðu Evrópu en væru ekki í vörn gagnvart Evrópu.

„Það erum ekki við – vestrið – sem eigum að óttast árekstur við Pútin heldur er þessu öfugt farið,“ sagði Sikorski. „Það er rétt að minna á þetta, ekki til þess að auka óttatilfinningu Rússa, enda er NATO varnarbandalag, heldur til að minna á að ráðist Rússar á eitthvert bandalagsríkjanna munu þeir óhjákvæmilega tapa.

Hernaðarlegur og efnahagslegur máttur Rússa fölnar í samanburði við mátt vestursins. Skorti okkur ekki viljastyrk tapa Rússar. Pútins eina von er að okkur skorti einurð.“

Sikorski sakaði Rússa um að heyja fjölþáttastríð gegn Pólverjum. Hann sagði Rússa stunda lygar þegar þeir breiddu ranglega út að Pólverjar vildu innlima vesturhluta Úkraínu, borgina Lviv og nágrenni sem áður var hluti Póllands.

„Lviv er Úkraína,“ sagði hann á úkraínsku og sagðist vona að orð sín bærust til Kremlar.

„Leiðtogar Rússlands og áróðurssmiðir vilja stilla okkur upp á móti Úkraínumönnum,“ sagði Sikorski. „Þeim tekst það ekki. Þeir tapa einnig á þessum vígstöðvum.“

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, og Radek Sikorski skipa sömu embætti frá því í desember 2023 og þeir skipuðu árið 2015 þegar stjórn þeirra féll í kosningum og flokkur Laga og réttlætis komst til valda.

Í átta ár einkenndi gagnkvæm tortryggni samskipti stjórnenda Póllands og Evrópusambandsins. Með ræðu sinni nú vildi Sikorski vinda ofan af því ástandi og leggja grunn að betra gagnkvæmu sambandi á æðstu stöðum innan ESB enda yrðu Pólverjar hluti ráðandi afla sambandsins.

Andrzej Duda, forseti Póllands, var í hópi þeirra sem sátu á þingpöllum og hlýddu á ræðu Sikorskis. Þar voru einnig sendimenn erlendra ríkja í Varsjá.

Með ræðu sinni áréttaði Sikorski að það væri hlutverk ríkisstjórnarinnar að ákvarða utanríkisstefnu Póllands. Ber að skoða ummæli hans um það efni í ljósi þess að Duda forseti er hallur undir Laga- og réttlætisflokkinn og hann fór nýlega gegn ósk ríkisstjórnarinnar þegar hann heimsótti Donald Trump, væntanlegan forsetaframbjóðanda bandarískra repúblikana, og lýsti vilja til að taka á móti kjarnavopnum í Póllandi innan ramma NATO um staðarval fyrir þau.

Forsetinn leitaði hvorki eftir samþykki stjórnar Tusks vegna heimsóknarinnar til Trumps né yfirlýsingarinnar um kjarnavopnin.

Sikorski fór hörðum orðum um margt í stefnu fyrri ríkisstjórnar og vakti athygli á að Mateusz Morawiecki, fyrrv. forsætisráðherra, væri ekki í þingsalnum vegna þess að hann hefði farið til Búdapest í Ungverjalandi á Evrópuársfund American Conservative Political Action Conference, eða CPAC. Sikorski sagði að þar myndi Morawiecki hitta „þjóðernissinnaða pútinista“.

Þegar Sikorski hafði lokið ræðu sinni sagðist Duda forseti miður sín og óánægður vegna þess sem hann lýsti sem „árás á stefnuna sem fyrri ríkisstjórn fylgdi“.

„Að mínu áliti var þetta tilefnislaust og reist á mörgum lygum, útúrsnúningum og ósannindum. Þetta sundrar Pólverjum og skapar ónauðsynlega pólitíska árekstra. Þessi orð vöktu einfaldlega óbragð hjá mér,“ sagði Duda í þinghúsinu.

Samband pólskra stjórnvalda við ráðamenn Þýskalands versnaði verulega árin 2015 til 2023 þegar stjórn Laga- og réttlætisflokksins var við völd. Nú lagði Sikorski áherslu á vináttu við Þjóðverja, tími ósamlyndis í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar væri liðinn.

„Þýskaland er lýðræðislegur nágranni, helsti viðskiptafélagi okkar, mikilvægur evrópskur gerandi og lykilbandamaður í NATO. Ráðamenn í Berlín og Varajá þarfnast hver annars,“ sagði utanríkisráðherra Póllands.

Heimild: AP-fréttastofan

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …