Home / Fréttir / PET varar við njósnum í Færeyjum og á Grænlandi

PET varar við njósnum í Færeyjum og á Grænlandi

Anders Henriksen, yfirmaður gagnnjósna hjá leyniþjónustu dönsku lögreglunnar (PET), sagði í blaðaviðtali fimmtudaginn 13. janúar að njósnastarfsemi erlendra ríkja færðist í aukana í Danmörku. Hætta stafaði einkum frá Rússum, Kínverjum og Írönum.

Henriksen fylgdi nýju hættumati PET úr hlaði en þar segir að hætta af undirróðurs- og njósnastarfsemi erlendra ríkja hafi aukist undanfarin ár. Um sé að ræða beinar njósnir, tilraunir til að hafa áhrif, áreiti, tilraunir til að komast ólöglega yfir framleiðsluvörur, tækni og þekkingu og í undantekningartilvikum hreinar morðtilraunir.

Þá sé einnig ástæða til að vara við undirróðri og njósnum „í Færeyjum og á Grænlandi“. Telur PET að þar gæti áhrifa af aukinni alþjóðlegri samkeppni um ítök á norðurslóðum (e. Arctic).

Í samtali við Politiken sagði Anders Henriksen að einkum Kínverjar legðu sig „mjög fram um að fá aðgang að fullkomnustu tækni og bestu þekkingu“. Þar væri samstarf á háskólastigi sérstaklega viðkvæmt.

„Sumar rannsóknir, jafnvel á frumstigi, má nota í hernaðarlegum tilgangi og til að skapa vandræði,“ sagði Henriksen.

Politiken sagði frá því sumarið 2021 að minnst 30 danskir vísindamenn hefðu verið ráðnir af Kínverjum innan áætlunar þeirra „1.000 hæfileikamenn“.

PET birtir hættumat sitt þegar leyniþjónustustofnanir Dana glíma við mikla erfiðleika.

Danska ríkisútvarpið, DR, birti í fyrra frétt um að Bandaríkjamenn hefðu til ársins 2014 að minnsta kosti notað danska neðansjávarstrengi til að hlera samtöl ráðamanna í Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð og Noregi, þar á meðal Angelu Merkel, þáv. Þýskalandskanslara.

Fyrrverandi yfirmaður PET, núverandi yfirmaður leyniþjónustu hersins, FE, Lars Findsen var handtekinn í desember 2021 fyrir að leka „algjörum trúnaðarmálum“ til fjölmiðla. Hann situr í gæsluvarðhaldi. Þá hefur Claus Hjort Frederiksen, fyrrv. varnarmálaráðherra, verið kærður fyrir brot á þagnarskyldu.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …