Home / Fréttir / Peningaþvætti Danske Bank reginhneyksli Evrópu

Peningaþvætti Danske Bank reginhneyksli Evrópu

ok-danske-bank

Danske Bank birti miðvikudaginn 19. september skýrslu um peningaþvætti í útibúi bankans í Eistlandi. Lögfræðistofan Bruun & Hjejle vann 87 bls. skýrsluna fyrir bankann. Eftir að skýrslan var birt sagði Thomas Borgen aðalbankastjóri af sér. Málinu er þó ekki lokið vegna að þess að af opinberri hálfu er það enn til rannsóknar.

Vera Jourova, dómsmálastjóri ESB, lýsti málinu með þeim orðum fimmtudaginn 20. september að það væri „mesta hneyksli í Evrópu um þessar mundir“. Hún sagðist hitta fjármálaráðherra Danmerkur, Eistlands og Finnlands í október til að átta sig betur á „hvar meginvillurnar urðu“ innan Danske Bank og hvort eftirlitskerfið hefði einnig brugðist.

Talið er að málið geti leitt til lækkunar á lánshæfismati danska ríkisins vegna vantrausts í garð fjármálakerfisins og eftirlits með því. Danska ríkisstjórnin hlustaði ekki á varnaðarorð um hættuna af starfsháttum Danske Bank. Hún reynir nú að minnka pólitíska skaðann með því að boða herta löggjöf.

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði við blaðamenn í tengslum við óformlegan fund leiðtogaráðs ESB í Salzburg fimmtudaginn 20. september að það væri „í sannleika sagt mjög hryllilegt að Danmörk hefði verið miðstöð peningaþvættis af þessari stærðargráðu“.

Á listum yfir spillingu í einstökum ríkjum hefur Danmörk jafnan verið meðal þeirra ríkja þar sem spilling er talin minnst, nú í öðru sæti á eftir Nýja-Sjálandi.

Í útibúinu í Eistlandi voru stunduð viðskipti við að minnsta kosti 6.200 „grunsamlega“ viðskiptavini. Talið er að Vladimir Pútín Rússlandsforseti eða fólk honum nákomið sé í þeim hópi.

Viðskiptin námu um 200 milljöðrum evra á rannsóknartímanum. Fjárhæðin er hærri en nemur vergri landsframleiðslu Portúgals og níu sinnum hærri en verg landsframleiðsla Eistlands. Ólögmætu umsvifin eru sögð án nokkurs fordæmis.

Frekari rannsóknir

Efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar er með málið í sínum höndum og segir Morten Jakobsen ríkissaksóknari að rannsókn á hennar vegum verði mun nákvæmari en sú sem Bruun & Hjejle gerðu. Hann útilokar ekki refsimál á hendur einhverjum einstaklingum í forystu Danske Bank.

Danska fjármálaeftirlitið tilkynnti fimmtudaginn 20. september að það mundi að nýju rannsaka Danske Bank vegna málsins og bera saman upplýsingar í skýrslunni á vegum bankans og skýrslu sem eftirlitið birti í maí 2018 þar sem farið var hörðum orðum um peningaþvættið og viðbrögð bankans.

Ríkissaksóknari Eistlands lætur málið einnig til sín taka og ætlar fyrir árslok að skýra frá niðurstöðu sinni.

Wall Street Journal segir að bandarísk yfirvöld séu með Danske Bank undir smásjá sinni.

Í fyrra var Deutsche Bank sektaður um 630 milljónir dollara í Bandaríkjunum af því að 10 milljarðir dollara höfðu runnið úr útibúi bankans í Rússlandi til viðskiptavina í skattaskjólum í gegnum New York og London. Þá var bankinn BNP Paribas í Frakklandi sektaður um 8,9 milljarða dollara fyrir að brjóta gegn bandarískum refsiaðgerðum t.d. gegn Súdan.

Í Jyllands-Posten er haft eftir sérfræðingum að engin fordæmi séu fyrir viðskiptum á borð við þau sem Danske Bank stundaði. Þess vegna sé ekki unnt að segja til hvaða ráða verði gripið gegn honum í Bandaríkjunum. Hugsanlega verði þau þess eðlis að bankinn eigi sér ekki viðreisnar von.

Bill Browder harðorður

Bill Browder, höfundur bókarinnar Eftirlýstur, sem leggur sig fram um að upplýsa peningatþvætti tengt rússneskum auðmönnum og baráttumaður fyrir svonefndum Magnitskij-lögum, sem miða meðal annars að því að minnka svigrúm rússneskra auðmanna til fjármagnsflutninga hefur sagt álit sitt á skýrslu Danske Bank um peningaþvætti í útibúi hans í Eistlandi. Hann segir að í skýrslunni sé að finna ásakanir sem skapi „mörg ný vandamál fyrir einstaklinga tengda Danske Bank“.

„Einstök atriði í skýrslunni sýna að þessir einstaklingar vissu hvað var að gerast en ákváðu að halda áfram viðskiptunum,“ segir Bill Browder og bendir meðal annars á að strax árið 2007 hafi seðlabanki Rússlands varað Danske Bank við peningaþvætti, skattsvikum og hreinni brotastarfsemi sem næði til milljarða rúblna hvern einsasta mánuð.

Browder og rannsakendur á hans vegum hafa skoðað nokkrar af sérkennilegustu færslum Danske Bank Estland og hann er ekki í neinum vafa um að rannsaka þurfi skattamál forystumanna bankans og þar fremstan Thomas Borgen aðalbankastjóra sem sagði af sér í vikunni eftir að skýrslan birtist.

„Ég ímynda mér að þegar fram líða stundir verði vandi Borgens langtum stærri en hann er við missi stöðu hans. Það á að rannsaka framgöngu hans af nákvæmni í Danmörku, Eistlandi og öðrum löndum,“ segir Bill Browder.

Í peningaþvættisskýrslu Danske Bank er Thomas Borgen sýknaður á þann veg að rannsakendurnir segja að hvorki aðalbankastjórinn, stjórnarformaðurinnn Ole Andersen né aðrir í stjórninni hafi brotið gegn lagaskyldum sínum gagnvart bankanum. Að mati Browders stenst þetta ekki.

„Ég tel ekki að það sé hlutverk bankans að leggja mat á hvort hann fór að lögum eða ekki. Þetta er að mínu mati hlutverk ákæruvaldsins í ýmsum löndum,“ segir hann.

Browder gefur almennt lítið fyrir að nú sé gripið til aðgerða af hálfu bankans með kæru til lögreglu, skýrslu um peningaþvætti og afsagnir.

„Nú gera þeir raunar ekki annað en þeir hefðu átt að gera fyrir 11 árum. Þetta er risatilraun til að bjarga eigin skinni,“ segir hann.

Danske Banka tilkynnti miðvikudaginn 19. september að bankinn hefði kært átta fyrrverandi starfsmenn sína til lögreglu auk þess að grípa til annarra aðgerða vegna 42 fyrrverandi starfsmanna. Browder telur að rannsaka eigi mun fleiri. Hann hefur þegar kært 26 fyrrv. starfsmenn hjá Danske Bank Estland til lögreglu í Eistlandi og ríkissaksóknari Eistlands hefur síðan gefið fyrirmæli um rannsókn málsins.

„Þeir geta ekki haft í neinn í starfi fyrir sig sem er ábyrgur fyrir mesta peningaþvætti evrópskrar sögu. Satt að segja finnst mér minna skipta hvað bankinn segir um sjálfan sig en yfirvöldin um bankann. Frá og með deginum í dag geta þeir ekki sagt sig saklausa,“ segir Browder og vísar þar til útgáfudags skýrslunnar, 19. september 2018.

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …