Home / Fréttir / Pelosi sendir Trump tóninn vegna NATO og ESB

Pelosi sendir Trump tóninn vegna NATO og ESB

 

Nancy Pelosi og Jean-Claude Juncker.
Nancy Pelosi og Jean-Claude Juncker.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, efndi til blaðamannafundar í Brussel þriðjudaginn 19. febrúar með öðrum bandarískum fulltrúadeildarþingmönnum að loknum fundi NATO-þingsins og eftir heimsókn til höfuðstöðva Evrópusambandsins.

Þetta var stærsta bandaríska þingnefndin sem hefur nokkru sinni heimsótt Evrópusambandið. Að loknum fundunum í Brussel var sameiginleg niðurstaða þingmannanna skýr: Bandaríkjamenn þarfnast nú meira en nokkru sinni NATO og Evrópusambandsins. Með þessum boðskap var ekki aðeins höfðað til aðildarþjóða fjölþjóðasamtakanna heldur einnig beint til Donalds Trumps Bandaríkjaforseti sem hefur horn í síðu þeirra, einkum ESB.

Pelosi flutti Jean Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og samstarfsmönnum hans þakkir og sagði að vinátta milli ESB og Bandaríkjanna væri „miklu mikilvægari en nokkru sinni“. Hún sagði:

„Að því er varðar NATO þörfnumst við þess nú meira en nokkru sinni þegar litið er fram á veginn því að verkefnin eru flóknari en í tví-póla samskiptunum við Sovétmenn … nú eru þau mun fjölbrotnari og vinátta við bandamenn er miklu mikilvægari.“

Hún sagði netöryggi, peningaþvætti og mansal skapa nýja ógn gagnvart Bandaríkjunum og ESB. Það væri „enginn munur“ á afstöðu repúblíkana og demókrata til NATO. Hún lagði ríka áherslu á nauðsyn samstöðu innan bandalagsins þess að staðfesta enn frekar hernaðarlegt samstarf.

Tilefni ferðar bandarísku þingmannanna úr báðum flokkum undir forystu Pelosi var meðal annars að fagna 70 ára afmæli NATO og að minnast þess að 30 ár væru í ár liðin frá hruni Berlínarmúrsins.

Eliot L. Engel, formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar sagði:

„Atlantshafsbandalagið er sterkt og því vegnar vel og við berum öll mjög sterkar taugar til þess. Innan fjölskyldna gengur á ýmsu og allir eru ekki alltaf sammála, við erum hér sem hluti af sömu fjölskyldu með sömu heimssýn. Framtíð Bandaríkjanna og Evrópu er samtvinnuð og við munum gera allt í okkar valdi til að hún verði björt.“

Bandarískir embættismenn hvöttu til samvinnu gegn öryggisógnum frá Rússum og Kínverjum.

 

Heimild: Euronews

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …